Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Er Íbúðalánasjóður dragbítur á Íslenskt efnahagslíf?

Skýrslan, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendi frá sér um daginn er alveg meiri háttar brandari.  Þó er nú vart hægt að segja að mér hafi verið hlátur í huga, þegar ég las hana.  Mér þykir alveg með ólíkindum að stofnun eins og Alþjóða gjaldeyrisstofnunin skuli láta svona plagg fara frá sér, sem er svo gjörsamlega á skjön við raunveruleikann að það sætir furðu.  Vissulega eru ágætis punktar í skýrslunni en það er ekki lögð nein sérstök áhersla á þá hluti , sem augljóst er að þyrfti að leggja áherslu á í hagstjórninni.

Það sem er sett fram sem aðalatriði í þessari skýrslu eru "ansi vafasamar fullyrðingar" um Íbúðalánasjóð.  Því er haldið fram að aðalástæðan fyrir "þenslu" á íbúðalánamarkaðnum.

Við skulum skoða þetta aðeins betur:

  • Því er haldið fram að Íbúðalánasjóður sé orsökin að þeim gríðarlegu fasteignaverðshækkunum sem orðið hafa og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu (stór Hafnarfjarðarsvæðinu), Suðurnesjum, Mosfellsbæ, Borgarnesi, Akranesi og fyrir austan fjall.  Sannleikurinn er sá að árið 19999 tók Íbúðalánasjóður upp 90% lán og hækkaði hámarkslánin til íbúðakaupa.  Fram að þeim tíma höfðu viðskiptabankarnir ekki sýnt íbúðamarkaðnum neinn áhuga, en ákváðu þá að koma inn og þá með trukki.  Þeir buðu hærri lán, allt að 100% og örlítið lægri vexti en Íbúðalánasjóður.
  • En viti menn þetta kom aðeins íbúum á höfuðborgarsvæðinu (stór Hafnarfjarðarsvæðinu) til "góða" því viðskiptabankarnir höfðu engan áhuga á því að lána fólki til þess að kaupa verðlitlar eða jafnvel verðlausar eignir úti á landi, Íbúðalánasjóður mátti sko "eiga þann pakka"
  • Því er blákalt haldið fram að Íbúðalánasjóður valdi því að vextir á íbúðalánum séu of háir.  Ekki get ég komið auga á þessa staðhæfingu og enn síður fæ ég séð hvernig hún fær staðist, þvert á móti hefur Íbúðalánasjóður haldið vöxtunum á íbúðalánum niðri, en það er þekkt að samkeppni heldur aftur af verðhækkunum.
  • Hluti af verkefnum Íbúðalánasjóðs er að halda uppi byggð á öllu landinu, með því að lána til íbúðakaupa- og bygginga úti á landi.  Þar hefur Íbúðalánasjóður staðið sig vel en ég sé ekki fyrir mér að viðskiptabankarnir myndu gera það ef Íbúðalánasjóður yrði lagður niður.

Ekki get ég ímyndað mér hverjir geti hafa verið "ráðgjafar"þessara sérfræðinga Alþjóða gjaldeyrissjóðsins en það er nokkuð víst að þeir hafa meira verið að hugsa um "einkavæðingarferlið" en þjóðarhag.


Misskilningur á misskilning ofan

Ansi oft hefur mér fundist að Árni Finnsson misskilji nokkuð mikið starf sitt hjá Náttúruverndarstofnun Íslandsen í hádegisfréttum RUV fannst mér nú taka steininn úr þegar hann var að tjá sig um "tap" Landsvirkjunar vegna seinkunnar við gerð Kárahnjúkavirkjunnar.  Það er bara ekki í lagi með manninn.

"Sjanghæjað" úr Seðlabankanum

Um fátt hefur verið meira rætt en launahækkanir Seðlabankastjóra.  Nú get ég ekki lengur orða bundist þegar formaður bankastjórnar Seðlabankans heldur því blákalt fram að það hafi orðið að hækka laun bankastjóranna til þess að það væri meira "jafnræði" við laun stjórnenda viðskiptabankanna, annars væri hætta á því að Seðlabankinn missti hæfa menn til viðskiptabankanna.  Heldur hann virkilega að viðskiptabankarnir ásælist afdankaða stjórnmálamenn og illa tennta "blýantsnagara"?  Ekki get ég munað hver var svo frumlegur að tala um bankastjóra Seðlabankans sem yfirmenn efnahagsmála landsins (held það hafi verið Gísli Marteinn Baldursson) þetta er mjög svo alvarlegur misskilningur og sýnir bara vanþekkingu hans á stjórnkerfi landsins, þetta fannst honum réttlæta launin þeirra, en svo er alls ekki Seðlabankinn er opinber stofnun og miðað við stöðu bankans í "skipuriti " þjóðarinnar er ekkert sem réttlætir laun bankastjóranna.

Er fiskveiðistjórnunin á Íslandi á rangri braut?

Kvótakerfið og það sem það hefur gertMargir hafa velt fyrir sér hvert sé hið raunverulega markmið kvótakerfisins og hvort það þjóni í raun og veru hagsmunum allrar þjóðarinnar eða hvort sé verið að þjóna hagsmunum örfárra aðila.  Hér á eftir verða talin upp helstu markmið þessa umdeilda kerfis:
  • Upphaflegt markmið kvótakerfisins var að sjálfsögðu að vernda fiskistofnana við landið og bæta sóknarstjórnunina.
  • Kvótakerfið átti að vernda byggð í landinu, þannig að smærri byggðarlög yrðu  ekki afskipt. Kvótakerfið átti með öðrum orðum að verða eitt verkfæra hinnar svokölluðu byggðastefnu.
  • Kvótakerfið átti að auka mikið afrakstur fiskimiðanna, allur afli átti að koma að landi og menn áttu að auka sóknina í verðmætari og vannýttar fisktegundir.  Með því að stýra sókninni átti að verða hagkvæmara að vinna aflann,  það átti að auka útflutningsverðmæti aflans  og mikil hagkvæmni átti að nást við vinnslu hans.
 En hver varð raunin?  Náðist að uppfylla þær væntingar, sem voru gerðar til fiskveiðistjórnunarinnar og hver varð svo fórnarkostnaðurinn? Að hluta til verður að viðurkennast að það hefur tekist að vernda fiskistofnana gegn ofveiði (þótt ekki séu fiskifræðingar sammála um það), því tekist hefur að mestu leyti að koma í veg fyrir ofveiði á helstu fiskistofnum landsins. Þá er ekki beinlínis  hægt að segja að kvótakerfið sjálft hafi brugðist, heldur er það  útfærslan á því sem hefur verið hvað alvarlegust og meðal annars orðið til þess að heilu byggðarlögin eru að leggjast í auðn..

En hefur tekist að bæta sóknarstjórnunina og nýtingu aflans?  Að hluta til hefur sóknarstjórnunin verið bætt, en á öllum málum eru tvær hliðar. Sem dæmi má nefna skip sem á lítinn kvóta eftir af einni fiskitegund, þar er reynt að forðast þau fiskimið, þar sem eru líkur á að sú fiskitegund haldi sig, en ef þannig vill til að umrædd tegund slæðist með í veiðarfærin er þessari fisktegund bara hent í hafið aftur til þess að hún komi ekki til frádráttar þeim litla kvóta sem eftir er.  Undirritaður  var mörg ár til sjós og aldrei upplifði ég það að aðeins ein fisktegund kæmi í trollið eða þá að fiskurinn bærist eftir fyrirfram gerðri pöntun.  Það er á margra vitorði að vegna þess hvernig verðlagið er á fiski, koma netaveiðibátar aðeins með fisk að landi, sem er lifandi þegar hann kemur inn fyrir borðstokkinn, að öðrum kosti er hann of verðlítill. Það verður að ná hámarksverði fyrir hvert kíló af kvótanum og þar af leiðandi er dauðum fiski bara hent aftur í sjóinn.  Hvernig sem á því stendur þá er ekki lengur landað tveggja nátta fiski og stærð þess fiskjar sem komið er með að landi hefur stórum aukist en samt verður nýliðunin alltaf lakari.  Hver skyldi ástæðan vera?

Hefur kvótakerfið orðið til þess að þjappa saman byggð í landinu og vernda þau þau byggðarlög, sem hafa staðið höllum fæti gagnvart stærri byggðarlögum?

Ekki er nokkur vafi á því að kvótinn hefur beint og óbeint orðið til þess að margar byggðir þessa lands eru að leggjast í auðn og aðrar að stækka og eflast eins og t.d Akureyri.  En þar á bæ (Akureyri) hafa t.d Samherjamenn verið mjög duglegir að kaupa upp kvóta á minni stöðum og flutt hann  eftir "hæfilegan" tíma, til Akureyrar. Þar með er það byggðarlag, sem kvótinn var keyptur frá, skilið eftir í sárum, þannig að fólkið sem þar býr hefur engin úrræði önnur en að fara frá verðlausum eignum sínum og byrja lífið frá grunni, á stöðum sem enn hafa kvóta, t.d Akureyri.  En nú ber svo við að Brim, undir forystu Guðmundar Kristjánssonar, hefur keypt ÚA eins og það leggur sig og nú beitir hann sömu "aðferðum og Samherjamenn hafa notað í gegnum tíðina.  Nú reynir Guðmundur ásamt bróður sínum að leika sama leikinn, varðandi Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum, en eins og dæmið lýtur út í dag eru ekki líkur á að bragðið heppnist.  Nú nýlega lagði Kambur á Flateyri upp laupana meðal annars var seldur "kvóti" af staðnum og skip, reyna á að halda uppi fiskvinnslu á staðnum, en ekki get ég séð að það gangi upp án þess að kvóti sé til staðar.  Því miður sé ég ekki annað en að þessi tilraun sé dauðadæmt, nema til komi einhver meiriháttar aðstoð við byggðarlagið.  Og talandi um aðstoð þá verð ég að segja að stjórnvöld hafa verið ansi værukær í sambandi við þann mikla vanda sem steðjar að byggðarlaginu, það eru settir tveir ráðherrar á "útkíkk" þeir hafa ekki látið sjá sig á staðnum og svo gortar annar þeirra sig af því að ætla að færa 20 "opinber" störf á Vestfirði í staðinn fyrir þau 120 störf sem fyrirsjáanlegt er að tapist.  Það mætti kannski benda viðkomandi ráðherra á að töluverður mismunur er á eðli þeirra starfa sem flytja á vestur og þeim fiskvinnslustörfum sem tapast og erfitt er að sjá hvernig þeir sem þarna missa vinnuna eiga að sinna þessum "opinberu" störfum. Svona mætti lengi telja hvernig "kvótakerfið" hefur farið með byggðir landsins og því miður verð ég að segja að stjórnvöld aðhafast ekkert til þess að stöðva þessa uggvænlegu þróun.

Nú er komin fiskveiðiráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár frá HAFRÓ og þvílík vonbrigði.  Enn einu sinni á að draga úr þorskveiðum og ekki nóg með það heldur á að lækkaaflaregluna líka.  Þetta segir bara að "kvótakerfið" hefur algjörlega brugðist.  Nú hefur þetta "fiskveiðistjórnunarkerfi" fengið rúm 20 ár til þess að sanna ágæti sitt og eitt er víst að vissir aðilar hafa varið þetta kerfi með klóm og kjafti og jafnvel hefur verið gengið svo langt að kalla það besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Menn hafa komið fram í fjölmiðlum og segja "kannski" séu nú einhverjir vankantar á kerfinu en það sé alls ekki því að kenna hvernig komið sé fyrir fiskveiðistofnunum og byggðarlögunum og til að bæta gráu ofan á svart, kemur framkvæmdastjóri LÍÚ fram og segir að smábátasjómenn séu aðalsökudólgurinn, því þeir hafi veitt langt umfram það sem þeim var ætlað, en útgerðarmenn, sem hann er í forsvari fyrir hafi tekið á sig skerðingar.  Heldur maðurinn virkilega að fólk trúí þessari vitleysu?

HAFRÓ á ekki þarna litla sök, í gegnum tíðina hefur verið lagður til minni fiskveiðaafli og átti með því að styrkja veiðistofnana til þess að hægt yrði að auka veiðarnar seinna, en hvenær er seinna?

En nú er komið að kaflaskiptum, þótt fyrr hefði verið, Það er tillaga mín að farið verði að tillögu HAFRÓ næstu tvö árin og verði ekki breyting á fiskistofnunum til mikils batnaðar verði farið í að kasta þessu "fiskveiðikerfi" okkar fyrir róða, því þá verður það fullreynt að þetta "kerfi" er handónýtt, í það minnsta eru Norðmenn nú sannfærðir um að þetta kerfi sé ónothæft.  Helst er fyrir okkur að lýta til frænda okkar í Færeyjum og skoða vel "fiskveiðistjórnunarkerfi" þeirra.


Þjálfaramál Íslenska landsliðsins

Ég las í Fréttablaðinu í morgun að Elísabet Jökulsdóttir vill að Ásthildur Helgadóttir þjálfi karlalið Íslands í knattspyrnu.  Hugmyndin sem slík er góðra gjalda verð, því eins og allir vita þá er Ásthildur Helgadóttir ein okkar allra bestu knattspyrnukona, ef ekki sú besta en þjálfunarreynslu hefur hún enga (eftir því sem ég best veit) og ekki hugnast mér forsendurnar fyrir uppástungu Elísabetar Jökulsdóttur en hún lætur hafa eftir sér í Fréttablaðinu "að það þurfi að breyta til og taka þetta ekki svona ferlega alvarlega".  Hvað hún á við veit ég ekki alveg en að mínum dómi eigum við að taka landsliðið okkar í fótbolta alvarlega.  Það er að mínum dómi komið að leiðarlokum hjá Eyjólfi Sverrissyni eftir mjög svo "slappan" feril og fljótt álitið sé ég ekki neinn karlkyns þjálfara sem gæti tekið við en sá þjálfari sem hefur sýnt framúrskarandi árangur er Helena Ólafsdóttir.  Það þarf að brjóta þetta upp, eins og Elísabet Jökuldóttir benti á, væri það ekki gott fyrir Íslenska knattspyrnu ef það væri kona sem þjálfaði karlalandsliðið og ekki bara kona heldur kona sem væri mjög fær á sínu sviði.  Ekki þarf að telja upp kosti Helenar hér en að mínum dómi væri mikill fengur að henni fyrir landsliðið.

Eru Íslendingasögurnar "Norskur"menningararfur?

Í morgun las ég stórmerkilega frétt í Fréttablaðinu en þar sagði (á forsíðu) " að Norska bókmenntaelítan hefði komist að þeirri niðurstöðu að VÖLUSPÁ og HEIMSKRINGLA SNORRA STURLUSONARséu tvö bestu bókmenntaverk Norðmanna". Handritin eru í fyrsta og öðru sæti á lista yfir 25 rit sem mælt er með að öll norska þjóðin lesi svo hún viti almennilega hver menningararfurinn er (Sjá meiri umfjöllun á www.dagbladet.no/kultur )

Þessi frétt kom mér svosem ekki alveg í opna skjöldu.  Ég bjó í Noregi í rúm tvö ár (vegna náms) þar las ég Íslendingasögurnar á norsku og það sem sló mig sérstaklega var að þar var hvergi minnst á Ísland og sem dæmi má nefna að Hlíðarendi í Fljótshlíð gat alveg verið einhver bær á vesturströnd Noregs.  Við Íslendingar vitum betur en það er ekki nóg það þarf að gera eitthvað í því að kveða þessa vitleysu Norðmanna niður í eitt skipti fyrir öll.  Allir þekkja þrákelkni Norðmanna í sambandi við þjóðerni Leifs Eiríkssonar og fleiri dæmi væri auðvelt að nefna t.d. las ég í Aftenposten, umfjöllun um Eirík Hauksson, en þar er hann "Norsk-Íslenskur".

Kannski eru Norðmenn svo menningarlega fátækir að þeir þurfa að "stela" frá öðrum.  En eitt er víst að ef ekki væri fyrir Konungsbók Eddukvæða vissu Norðmenn ekkert um sögu sína.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband