Sá á kvölina sem á völina (nema hann hætti við allt saman)

Ég byggi á tölum frá 2004, notast við tölur um fjölgun ferðamanna til landsins árið 2005 ásamt verðbreytingum sem orðið hafa á þessu tímabili.

Fyrir nokkru var frétt þess efnis að farþegum til landsins hefði fjölgað um 24% frá fyrra ári, þá er ekki óvarlegt að áætla að tekjum vegna hvalaskoðana hækki um 24% árið 2004 og verði þar af leiðandi 2.108.000.000 en árið 2003 voru tekjur af hvalaskoðunum 1.700.000.000 og þeir sem fóru í hvalaskoðunarferðir voru 70.000 og má einnig ætla að þeim fjölgi jafn mikið eða verði 86.800 árið 2004.

Fullorðinsgjald í hvalaskoðunarferð er 3.700 kr en fyrir börn er verðið 1.600 kr.  Gera má ráð fyrir því að 60% greiði “fullorðinsgjald” en 40% greiði “barnagjald”.

 

                        192.696.000 ef 60% greiða “fullorðinsgjald”

                          55.552.000 ef 40% greiða “barnagjald”

                        248.248.000 yrðu þá heildartekjur þeirra sem stunda hvalaskoðanir í ár

 

En við skulum líka skoða “hina hliðina á peningnum” það er að segja þær tekjur sem við myndum hafa af hvalveiðum.

Við skulum miða útreikningana við það að við stunduðum hrefnuveiðar, en hver hrefna á Japansmarkað gefur af sér um 1.800 kg af kjöti.  Verðið á þessu kjöti út úr verslun í Japan er á bilinu 30.000 Ikr til 100.000 Ikr.  Ekki er sanngjarnt að reikna útflutningstekjurnar eftir þessum verðum, því útflutningsverðmætið er aðeins 30% af þessum tölum, eða 6.923 km/kg til 23.077 kr/kg.  Nú er alveg útilokað að ein hrefna fari eingöngu í “lakari” flokkinn og eingöngu í þann “betri” svo að við “gefum” okkur að 70% af hrefnunni fari í “lakari” flokkinn og 30% fari í “betri” flokkinn, þá verður útflutningsverðmæti hrefnunnar 21.184.615 kr.  Þannig þyrfti aðeins að veiða 100 hrefnur á Japansmarkað til að skila jafnmiklum tekjum til þjóðarbúsins eins og við höfum af hvalaskoðunum.  Aðeins einn þriðji af þessum tekjum myndi renna til útgerðanna, eða 7.061.538 kr. en samt sem áður þyrfti aðeins að veiða 35 hrefnur á Japansmarkað til þess að skila útgerðinni sömu heildarveltu og hvalaskoðunarfyrirtækin eru með.

En það er ekki sanngjarnt að ætla það að hrefnan færi öll á Japansmarkað, við verðum að áætla að eitthvað færi til neyslu innanlands en málið er það að þá vantar viðmið (því eins og flestir vita þá hafa ekki verið stundaðar veiðar á hrefnu hér við land í tuttugu ár) því þarf að notast við það verð sem var fyrir hvert kg. þegar vísindaveiðarnar voru stundaðar en það var 400 kr/kg til útgerðar.  Það er staðreynd að hrefnur á innanlandsmarkað eru minni en þær hrefnur sem eru ætlaðar á Japansmarkað eða gefa frá 1.000kg af kjöti til 1.500 kg af kjöti.  Þetta þýðir að þær eru að verðmæti 400.000 kr til 600.000 en við verðum að gera okkur grein fyrir því að þetta er það sem rennur til útgerðarinnar en verð á hrefnukjöti út úr verslun er mun hærra.  Reikna má með að 70% hrefna væru  ætlaðar á Japansmarkað en 30% væru ætlaðar á innanlandsmarkað, þannig að ef ætti að veiða 300 hrefnur yrði útflutningsverðmætið 4.448.769.231 kr. tekjur útgerðarinnar af útflutningnum yrðu 1.482.923.077 kr. og tekjurnar vegna innanlandsmarkaðar yrðu 54.000.000 eða samtals yrðu tekjur útgerðarinnar af 300 hrefnum 1.536.923.077 kr.

Aftur mætti leiða að því rök að ef okkur bæri gæfa til þess að samræma hvalveiðar og hvalaskoðanir þá yrðu tekjur þjóðarbúsins (miðað við þessar forsendur) 6.556.769.231 kr. en því miður þá eru “hvalverndunarsjónarmiðin” orðin svo sterkur þáttur hjá þeim sem starfa við hvalaskoðanirnar og þetta er orðið svo mikið tilfinningamál að það verður mjög erfitt að samræma þetta tvennt.  Og núna berast þau stórtíðindi að menn séu tilbúnir til þess að “ræða” hvalveiðar innan Alþjóða hvalveiðiráðsins en eins og menn vita hefur Alþjóða hvalveiðiráðið aðeins haft algjöra friðun hvala á stefnuskrá sinni hingað til.

En þurfi að velja á milli þessara tveggja atvinnuvega verðum við að gera okkur grein fyrir að ekki er hægt að láta tilfinningar ráða ferð.

Gott dæmi um tilfinningar vegna hvalveiða er að það er mikið talað um að það sé “ómannúðlegt” að skjóta hvali.  Þá spyr ég á móti: Er “mannúðlegt” að ala upp kálfa í “sláturstærð” og senda þá síðan í sláturhús, eða ala upp grísi til slátrunar eða kjúklinga?

Nei það eru engin dráp “mannúðleg” en aftur á móti er ég nokkuð viss um það að við myndum ekki lifa lengi ef við ætluðum alltaf að hugsa um hvað væri “mannúðlegt” og hvað ekki, við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við lifum á veiðum og til að lifa af þá þarf að nýta það sem náttúran hefur upp á að bjóða og umfram allt verðum við að nýta afurðirnar í sátt við náttúruna.

 

Nú í dag hófst ráðstefna   alþjóða hvalveiðiráðsins (eða réttnefni væri náttúrlega alþjóða hvalverndarráðið) Ekki get ég með nokkru móti séð hvað þjóðir sem eru hlynntar skynsamlegri nýtingu hvala eru að gera í þessu ráði því ekki virðist með nokkru móti hægt að koma neinu tauti við þá aðila , sem hafa algjöra friðun hvala á stefnuskrá sinni.  Virðist það einnig vera að þeir sem ganga harðast fram í andstöðu sinni og beita aðferðum, sem ekki eru hefðbundin nái mestri athygli, sbr. Paul Watson og Greenpeace.

En ef baráttuaðferðir þeirra síðarnefndu eru skoðuð þá verða baráttuaðferðir þeirra sífellt ofbeldisfyllri eftir því sem árunum fjölgar.

Nú vilja Bandaríkjamenn fá svokallaðan “frumbyggjakvóta” en þeir hafa barist gegn öllum hvalveiðum af mikilli hörku og jafnvel væri hægt með góðri samvisku hægt að kalla Bandaríkjamenn mestu hvalveiðiþjóð heims því hvergi í heiminum drepst meira af höfrungum sem flækjast í “reknetum” en einmitt innan lögsögu Bandaríkjanna.

Þá má kannski benda á það að Bretar hafa ákveðið "herferð" á hendur okkur Íslendingum vegna hvalveiða okkar en það hlýtur að vekja furðu margra að Bretar skuli ekki mótmæla hvalveiðum Bandaríkjamanna en kannski það sé áætlað að það sé "auðveldara" að eiga við Íslendinga en Bandaríkjamenn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband