Náttúruverndar-ayatollar

Eins og margir aðrir landsmenn horfði ég á þáttinn "Út og suður" sunnudagskvöldið 12. júní 2005. Annar viðmælenda Gísla Einarssonar það kvöldið var Jón Sveinsson æðarbóndi í Miðhúsum í Reykhólasveit. Í umræddum þætti viðraði hann skoðanir sínar á hinum ýmsu málum en þó aðallega á þeim málum sem snertu æðarrækt, þar sem æðarræktin er mest á hans áhugasviði og undirstaða afkomu hans. Vil ég hrósa honum fyrir það hvað hann kom sínum skoðunum vel og skilmerkilega á framfæri og ekki lá hann á skoðunum sínum enda er hann ekki þekktur fyrir það.

Eitt af því sem hann talaði um var sú breyting sem hefur orðið á svokölluðum "náttúruverndarsinnum". Eins og hann sagði sjálfur voru þessir aðilar, hérna áður fyrr, þannig að þeir gerðu sér grein fyrir því að það þurfti að lifa í sátt við náttúruna og að það yrði gert með því að ekki væri gengið á eina tegund á kostnað annarrar, með öðrum orðum sagt að "það yrði að vera jafnvægi í náttúrunni". En einhvern tíma hafa þessir svokölluðu náttúruverndarsinnar "dottið úr sambandi", í dag vilja þeir (náttúruverndar-ayatollarnir eins og Jón Sveinsson kallaði þá) fylla allt af einni tegund án þess að taka nokkurt tillit til þess hvort náttúran beri þessa aukningu eða ekki. Um þetta höfum við séð mörg dæmi, t.d. voru heilu byggðarlögin lögð í rúst norðarlega í inúítabyggðum í Kanada þegar "umhverfis-ayatollarnir" ákváðu að snúast gegn selveiðum þeirra, þeir ákváðu að það yrði að stöðva grindhvaladráp Færeyinga og það gerðu þeir með því að sýna myndir um allan heim af því þegar hvalirnir voru reknir upp á grynningar og aflífaðir, svo fljótt sem verða mátti, eftir því sem "umhverfis-ayatollarnir" fullyrtu, á villimannslegan hátt. En þetta skulum við skoða aðeins nánar. Hvalirnir voru reknir upp á grunnsævi og aflífaðir, þannig að "dauðastríðið" hjá skepnunni varð mjög stutt, en aftur á móti hef ég séð myndir í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna, þessar myndir eru yfirleitt frá Ástralíu og eru af hvalavöðum sem synda á land. Af mörgum tugum, ef ekki hundruðum hvala sem þannig stranda og "umhverfis-ayatollarnir" reyna að "bjarga" eru aðeins örfáir sem komast til hafs aftur og þegar þeir sem eftir verða drepast loksins hafa þeir legið strandaðir í fjörunni í hátt í tvo sólahringa. Persónulega þykir mér það vera meiri villimennska að láta hvalina deyja svona heldur en sú aðferð sem Færeyingar notuðu við sínar veiðar, en dæmi nú hver fyrir sig.

Jón Sveinsson talaði einnig um það, í umræddum þætti, að "umhverfis-ayatollarnir" væru vel menntaðir, vel máli farnir og einhverra hluta vegna næðu þeir vel til fjölmiðla. Einhverra hluta vegna komast þeir upp með það að segja hluti sem ekki standast og það er enginn sem leiðréttir það sem þeir bulla (samanber vitleysuna í sambandi við það hvað hvalaskoðun er "blómleg" atvinnugrein). Hvalveiðisinnar segja bara sín á milli; "ég veit það vel að hvalaskoðunarmenn eru að stórtapa á þessari vitleysu," en málið er að þó að einstaka maður viti að þetta sé "bransi" sem er ekki á vetur setjandi, þá veit almenningur það ekki og er ekki tími til kominn til þess að beita sömu aðferðum í baráttunni og þeir (umhverfis-ayatollarnir) nota?

Ein rökin sem "umhverfis-ayatollarnir" nota gegn hvalveiðum Íslendinga, og helstu rökin, eru að ekki séu til markaðir fyrir hvalkjöt. Auðvitað! Hvalveiðar í atvinnuskyni hafa verið bannaðar í tuttugu ár og auðvitað hefur hvorki verið um að ræða framboð né eftirspurn þann tíma en það er vitað að eftirspurn er til staðar, markaðinn þarf aðeins að vinna og í það verður farið þegar hvalveiðar í atvinnuskyni verða leyfðar aftur. Þegar hvalaskoðun hófst var enginn markaður fyrir hana en markaðurinn var unninn, það tók tíma og kostaði sitt (þótt ekki séu allir sammála um tekjurnar af þeirri vinnu).

Talsmaður Greenpeace vill meina að við Íslendingar ættum frekar að setja peninga í rannsóknir á loftlagsbreytingum en að setja þá í hvalveiðar í vísindaskyni eða jafnvel í hvalaskoðun. Ég veit nú ekki betur en að við setjum nokkuð góðar fjárhæðir í rannsóknir á loftlagsbreytingum en ég vona að engum heilvita manni detti í hug að fara að "ríkisstyrkja" hvalaskoðun, það væri nú bara til þess að lengja í "hengingarólinni" hjá flestum þeim fyrirtækjum sem eru í þeirri atvinnugrein. Ætli það sé ekki best að leyfa fyrirtækjunum að fara "yfir um" án allra ríkisafskipta.

Höfundur er fyrrverandi stýrimaður


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og einum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband