Yfirdráttur upp á 2.000 - 3.000 milljónir - Takk!!!!

Var að skoða drög að matsskýrslu fyrir ferjuhöfn í Bakkafjöru (hér) Samkvæmt þessu er áætlaður kostnaður við gerð Bakkafjöruhafnar 5.600 milljónir króna.  Ekki er ég neinn sérfræðingur í hafnargerð,  en ég fæ nú ekki séð að þessi tala geti með nokkru móti staðist, miðað við allt það uppfyllingarefni sem á að nota og ekki er gert ráð fyrir neinni óvæntri uppákomu (eins og t.d því að sjóvarnargarðar hverfi í óveðri eða að dæla þurfi sandi aukalega upp úr höfninni).  Það er nokkuð ljóst í mínum huga að eftir er að  gera "trúverðuga" kostnaðaráætlun (eða verður látið nægja að gera álíka góða kostnaðaráætlun og fyrir Grímseyjarferjuna?).  Þarna er um vanáætlun upp á að minnsta kosti 2 - 3 milljarða kannski á bara að heimila yfirdrátt fyrir því?  Í þessari matsskýrslu er talað um minna skip en Herjólf en með styttingu siglingar er örugglega ætlunin að fjölga ferðum verulega.  Þarna er eingöngu verið að tala um kostnaðinn við hafnargerðina og vegagerð vegna hennar, þá er eftir kostnaður vegna nýrrar ferju og ég fæ ekki séð hvernig 62 metra skip (samkvæmt þessum drögum að matsskýrslu er gert ráð fyrir 62 metra langri ferju) getur annað flutningi á vörum, bifreiðum (200-300 bílar á dag þar af 10-15 þungaflutningabílar) og fólki.  Ég hef átt samræður við marga sjómenn, sem hafa stundað veiðar undan Suðurströnd Íslands í áratugi, þeim ber öllum saman um það að hafnargerð þarna sé ekki framkvæmanleg.  Ef þetta verður að veruleika, sem allt útlit er fyrir, vona ég að þessir menn hafi ekki rétt fyrir sér, því ég vil síður að skattpeningar mínir og annarra fari í einskisnýta tölvuleiki Siglingastofnunar.
mbl.is 200-300 bíla umferð á dag vegna Bakkafjöruhafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Jóhann, mig minnir að Gísli Viggósson hafi talað um að kaup á nýrri ferju sú upphæð væri inni í þessum 5,6 miljörðum. Nærstu kosningar eru 2o11, ég spái því að þá muni enginn þingmaður kannast við að hafa stutt þessa vitleysu.

Georg Eiður Arnarson, 3.9.2007 kl. 12:44

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Samkvæmt þessum drögum er ekki verðið á ferjunni inní þessari tölu enda getur það bara ekki verið það sér það hver maður þegar þetta er skoðað.   En ég fæ ekki séð að skip sem er bara 62 metrar á lengd og ristir ekki meira en 3,1 metra (þetta skip vildi ég gjarna sjá) geti annað flutningum til og frá Eyjum.  Mig minnir að framkvæmdum við Bakkafjöru eigi að ljúka 2018, þannig að kosningar 2011 bjarga mjög litlu, samt sem áður verður búið að setja í þessa vitleysu að minnsta kosti 4000 -5000 milljónir í verkefni sem fáir trúa því að verði að veruleika og það sem verra er  Vestmannaeyingar sitja uppi með verri samgöngur fyrir vikið.

Jóhann Elíasson, 3.9.2007 kl. 13:15

3 Smámynd: Jens Guð

  Það er full ástæða til að vera tortrygginn út í vinnubrögðin,  eins og dæmin sanna.

Jens Guð, 3.9.2007 kl. 23:53

4 identicon

Úr því að fólk sýnir samgöngum milli lands og Eyja svona mikinn áhuga er rétt að benda viðkomandi á að óþarfi er að gera sér upp hugmyndir um ýmsa hluti, svo sem hvað felst í kostnaðartölum og þar fram eftir götunum.  Hafi maður nokkurn minnsta áhuga á öðru en að mála skrattann á vegginn þá er auðsótt mál að nálgast upplýsingar um flesta hluti er við koma þessari framkvæmd.

Læt hér fylgja brot úr skýrslum ásamt slóðinni að uppruna þeirra, sem hafa að geyma svör við ýmsum vangaveltum hér á síðunni.

Einnig get ég upplýst að ég hef stundað sjóinn hér við suðurströndina í 20 ár, sem háseti,stýrimaður og skipstjóri og tel ég hafnargerð í Bakkafjöru afskaplega vænlegan kost til hagsbóta fyrir samgöngur milli lands og Eyja.

http://www.althingi.is/altext/133/s/1386.html .2.1 Stofnkostnaður.
Tafla 3-1. Hafnarmannvirki, heildarfjárveitingar.

 2007 2008 2009 2010 Samtals  millj. kr. millj. kr. millj. kr. millj. kr. millj. kr. Ríkishluti innan grunnnets 1.007 ,8 718 ,8 261 ,2 246 ,6  Ríkishluti utan grunnnets 60 ,9 71 ,2 173 ,8 188 ,4  Óbundið fé í ársbyrjun 2007 samkvæmt yfirliti dags. 14. desember 2006 -584 ,7     Hafnarmannvirki, fjárveitingar 484 ,0 790 ,0 435 ,0 435 ,0 2.144 ,0 Höfn í Bakkafjöru 200 ,0 1.035 ,0 1.240 ,0 825 ,0 3.300 ,0 Stækkun tollaðstöðu á Seyðisfirði (200 m2)  60 ,0   60 ,0 Vestmannaeyjaferja, sérstök fjárveiting  100 ,0 725 ,0 775 ,0 1.600 ,0  

http://vgwww.vegagerdin.is/Bakkafjoruhofn.nsf

 Verkliður Kostnaður [millj. króna]Undirbúningur og hönnun 300Aðstöðusköpun og bráðabirgðavegir 360Fyrirstöðugarðar 190Skjólgarðar hafnar og dýpkun 1.770Ferjubryggja og aðstaða 800Bílferja 1.730Vegagerð 450

Heildarkostnaður 5.600

Máli maður skrattann á vegginn þá verður útlitið óhjákvæmilega svart.

Með vinsemd. 

Jarl Sigurgeirsson. Búsettur í Vestmannaeyjum landi tækifæranna.  

Jarl Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 00:37

5 identicon

Rétt er það að öll sjónarmið eigi rétt á sér.  En mér finnst lágmarkskrafa í svona umræðum að menn kynni sér allavega það helsta er málið varðar.  Upplýsingar um þessa framkvæmd eru vel aðgengilegar eins og ég benti á í innleggi mínu.  Að halda því fram að kostnaður við byggingu ferju sé ekki inni í þessum tölum er einfaldlega rangt og sýnir að menn hafa ekki haft fyrir því að leita sér lágmarks upplýsinga og eru því að gera sér upp hugmyndir.

Ég hvet fólk sem áhuga hefur á samgöngumálum okkar Eyjamanna og reyndar allra Íslendinga að kynna sér þær skýrslur sem gerðar hafa verið um Bakkafjöru.  Þær eru fagleg unnar og fólk hefur lagt í þær mikla vinnu og metnað.  Menn geta svo gagnrýnt skýrslurnar fram og aftur eins og þeim þurfa þykir, en að fara fram með rangfærslur er ekki sjónarmið sem mér finnst eiga rétt á sér í svona umræðum.

"Vöndum okkur" er orðasamband sem oft hefur verið notað í umræðum um Bakkafjöru.  Ég tek undir það.  Ræðum saman um framkvæmdina, setjum fram okkar skoðanir en förum ekki með rangindi það þjónar engum nema þeim er vilja hafa skrattann á veggnum hjá sér og við kærum okkur ekkert um það.

Með vinsemd.

Jarl Sigurgeirsson Vestmannaeyjum, landi tækifæranna.

Jarl Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 10:12

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Jarl, ég hef kynnt mér "flestar" þær skýrslur, sem hafa verið gefnar út varðandi Bakkafjöru og allt tal um óvandaða umfjöllun á alls ekki rétt á sér.  Ég er ansi hræddur um að þú verðir að lesa þessar skýrslur betur ef þú ert alveg á því að ekki megi gagnrýna þær kostnaðartölur sem hafa verið gefnar upp.  Ég er á því að ALLIR ættu að vanda sig þegar umræður um Bakkafjöru eru annars vegar og þetta orðatiltæki þitt að mála skrattann á vegginn, það er enginn að því einungis er verið að benda á möguleika sem vissulega eru til staðar.

Jóhann Elíasson, 4.9.2007 kl. 11:20

7 identicon

Sæll Jóhann.

Mig langar að byrja á að þakka þér auðsýndan áhuga á hagsmunamálum okkar Eyjamanna.  Skrif mín eru ekki á nokkurn hátt ætluð til þess að ég geti staðið í einhverju þvargi á Moggablogginu.  Mig langaði einungis að benda á augljósar rangfærslur sem ég varð var við í skrifum þínum um þessa grein á mbl.is. 

Lesi maður samgönguáætlun þá kemur berlega í ljós að kostnaður við smíði ferju er inni í kostnaðartölum sem upp hafa verið gefnar.  Þetta kemur einnig fram í skýrslu stýrihóps um Bakkafjöruhöfn.  Þar kemur einnig fram að um sé að ræða ferju sem geti flutt 50 fólksbíla í hverri ferð og 250 farþega.  Áætlaður ferðafjöldi er 6-7 ferðir á dag eins og kemur fram í sömu skýrslu.

Ég er afskaplega hlynntur því að niðurstöður úr þessum skýrslum séu gagnrýndar á allan mögulegan hátt það getur einungis orðið til góða að fá sem flestar skoðanir á þessum málum áður en framkvæmdir eru hafnar.  Skýrslur eru ekkert heilagri plögg en hver önnur, en þær eru þó alltaf unnar af fólki sem leggur í þær mikla vinnu og metnað.  Ég fæ ekki séð af þeim skýrslum sem ég hef gluggað í varðandi gerð Bakkafjöru að þar sé verið að kasta til höndunum á nokkurn hátt og tel í raun að nokkuð vel sé staðið að málum varðandi undirbúning framkvæmdarinnar.   Það breytir þó ekki því að svo sannarlega eru þessar skýrslur gagnrýniverðar.

Eins og þú segir í upphafi þá ert þú enginn sérfræðingur um hafnargerð, það er ég ekki heldur.  Við höfum þó  rétt til að segja okkar skoðun á málunum,  Ég hef stundað sjóinn hér í 20 ár og tel ekki að þau hafnarmannvirki sem byggð verða í Bakkafjöru komi til með að sópast burt á framkvæmdatímanum.  Það segir mér reynsla mín og þær skýrslur sem ég hef lesið.  Þá kemur einnig fram í skýrslunum að sandburður verði ekki meiri þarna en eðlilegt getur talist og er það byggt á reynslu svipaðra mannvirkja víða um heim ásamt rannsóknum á sandburði við ströndina.  Þó svo að ég hafi stundað sjóinn þessi 20 ár þá verð ég að viðurkenna að ég veit sáralítið um sandburð og verð því að treysta sérfræðingum á því sviði sama á við um kostnað við þessar framkvæmdir.  Mér finnst nóg um að reikna út hvað kosti að mála húsið mitt þó ég fari ekki að taka fram fyrir hendur á þeim sem gera kostnaðaráætlanir vegna hafnarmannvirkja með tilheyrandi flutningi jarðefna. 

Auðvitað er okkur ekkert sama um peningana sem fara í þessa framkvæmd.  Þetta eru miklir fjármunir og mikilvægt að fara vel með peningana okkar.  Ég hef þá bjargföstu skoðun að Bakkafjara sé það framfaraspor í samgöngumálum sem best þjóni hagsmunum okkar Eyjamanna sem og annarra landsmanna.  Ég tel að peningum okkar sé betur varið í þetta verkefni en nokkurt annað er lítur að samgöngum milli lands og Eyja. 

Með vinsemd.

Jarl Sigurgeirsson Vestmannaeyjum, landi tækifæranna.

Jarl Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 12:54

8 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þakka málefnaleg skrif,Jarl, ég sé að við erum að mestu leyti sammála, allavega viljum við báðir að samgöngumál við Eyjar verði sem best og því er ég að gagnrýna Bakkafjörudæmið ég er á því að rannsóknir séu með öllu ófullnægjandi (menn hafa horft til Eyja í margar aldir úr Bakkafjöru og ég er þess fullviss að ef það væri framkvæmanlegt, væri fyrir löngu búið að gera þar örugga höfn).  Ég er hræddur um að ef Bakkafjörudæmið "floppar", þá sitji Vestmanneyingar uppi með lakari samgöngur en áður og það er að mínu mati óásættanlegt.

Jóhann Elíasson, 4.9.2007 kl. 13:29

9 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Þetta Bakkafjöru dæmi er um margt nokkuð merkilegt og athyglisvert hvernig brugðist er við gagnrýni sem hún fær og á ég sérstaklega við bæjarstjóra Vestmannaeyja. Annars er gaman að sjá Jarl vin minn tjá sig hér um þetta mál. Ég verð eiginlega að vera honum nokkuð ósammála um þessa fjöru þarna, við sem stunduðum togveiðar þarna upp í kálgörðum meðan fjaran var opin sáum nokkuð vel hvaða gríðarlegur flutningur á sandi átti sér stað þarna, rifið á eilífri hreyfingu og þurfti ekki neitt stórkostulegt brim til. Ef ég man rétt var Jarl ekki byrjaður sem skipstjórnarmaður á þessum tíma og þess vegna eðlilegt að hann hafi ekki þessa reynslu í pokahorninu. Með rannsóknir á sandburði verð ég að setja ákveðin spurningarmerki við þá vinnu, einfaldlega vegna reynslunnar sem átti sér stað við innsiglinguna á Hornafirði. þar gerðust hlutir sem þessir sérfræðingar gátu ekki með nokkru móti séð fyrirfram og hef ég áður skrifað um það. Annars er öll umræða góð um alla hluti svo framalega sem ekki er farið á bólakaf í skotgrafirnar og skítnum dreift í allar áttir og hraunað yfir allt og alla. Ég bið kærlega að heilsa þér Jarl minn.

Hallgrímur Guðmundsson, 4.9.2007 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband