Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Náttúruverndar-ayatollar

Eins og margir aðrir landsmenn horfði ég á þáttinn "Út og suður" sunnudagskvöldið 12. júní 2005. Annar viðmælenda Gísla Einarssonar það kvöldið var Jón Sveinsson æðarbóndi í Miðhúsum í Reykhólasveit. Í umræddum þætti viðraði hann skoðanir sínar á hinum ýmsu málum en þó aðallega á þeim málum sem snertu æðarrækt, þar sem æðarræktin er mest á hans áhugasviði og undirstaða afkomu hans. Vil ég hrósa honum fyrir það hvað hann kom sínum skoðunum vel og skilmerkilega á framfæri og ekki lá hann á skoðunum sínum enda er hann ekki þekktur fyrir það.

Eitt af því sem hann talaði um var sú breyting sem hefur orðið á svokölluðum "náttúruverndarsinnum". Eins og hann sagði sjálfur voru þessir aðilar, hérna áður fyrr, þannig að þeir gerðu sér grein fyrir því að það þurfti að lifa í sátt við náttúruna og að það yrði gert með því að ekki væri gengið á eina tegund á kostnað annarrar, með öðrum orðum sagt að "það yrði að vera jafnvægi í náttúrunni". En einhvern tíma hafa þessir svokölluðu náttúruverndarsinnar "dottið úr sambandi", í dag vilja þeir (náttúruverndar-ayatollarnir eins og Jón Sveinsson kallaði þá) fylla allt af einni tegund án þess að taka nokkurt tillit til þess hvort náttúran beri þessa aukningu eða ekki. Um þetta höfum við séð mörg dæmi, t.d. voru heilu byggðarlögin lögð í rúst norðarlega í inúítabyggðum í Kanada þegar "umhverfis-ayatollarnir" ákváðu að snúast gegn selveiðum þeirra, þeir ákváðu að það yrði að stöðva grindhvaladráp Færeyinga og það gerðu þeir með því að sýna myndir um allan heim af því þegar hvalirnir voru reknir upp á grynningar og aflífaðir, svo fljótt sem verða mátti, eftir því sem "umhverfis-ayatollarnir" fullyrtu, á villimannslegan hátt. En þetta skulum við skoða aðeins nánar. Hvalirnir voru reknir upp á grunnsævi og aflífaðir, þannig að "dauðastríðið" hjá skepnunni varð mjög stutt, en aftur á móti hef ég séð myndir í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna, þessar myndir eru yfirleitt frá Ástralíu og eru af hvalavöðum sem synda á land. Af mörgum tugum, ef ekki hundruðum hvala sem þannig stranda og "umhverfis-ayatollarnir" reyna að "bjarga" eru aðeins örfáir sem komast til hafs aftur og þegar þeir sem eftir verða drepast loksins hafa þeir legið strandaðir í fjörunni í hátt í tvo sólahringa. Persónulega þykir mér það vera meiri villimennska að láta hvalina deyja svona heldur en sú aðferð sem Færeyingar notuðu við sínar veiðar, en dæmi nú hver fyrir sig.

Jón Sveinsson talaði einnig um það, í umræddum þætti, að "umhverfis-ayatollarnir" væru vel menntaðir, vel máli farnir og einhverra hluta vegna næðu þeir vel til fjölmiðla. Einhverra hluta vegna komast þeir upp með það að segja hluti sem ekki standast og það er enginn sem leiðréttir það sem þeir bulla (samanber vitleysuna í sambandi við það hvað hvalaskoðun er "blómleg" atvinnugrein). Hvalveiðisinnar segja bara sín á milli; "ég veit það vel að hvalaskoðunarmenn eru að stórtapa á þessari vitleysu," en málið er að þó að einstaka maður viti að þetta sé "bransi" sem er ekki á vetur setjandi, þá veit almenningur það ekki og er ekki tími til kominn til þess að beita sömu aðferðum í baráttunni og þeir (umhverfis-ayatollarnir) nota?

Ein rökin sem "umhverfis-ayatollarnir" nota gegn hvalveiðum Íslendinga, og helstu rökin, eru að ekki séu til markaðir fyrir hvalkjöt. Auðvitað! Hvalveiðar í atvinnuskyni hafa verið bannaðar í tuttugu ár og auðvitað hefur hvorki verið um að ræða framboð né eftirspurn þann tíma en það er vitað að eftirspurn er til staðar, markaðinn þarf aðeins að vinna og í það verður farið þegar hvalveiðar í atvinnuskyni verða leyfðar aftur. Þegar hvalaskoðun hófst var enginn markaður fyrir hana en markaðurinn var unninn, það tók tíma og kostaði sitt (þótt ekki séu allir sammála um tekjurnar af þeirri vinnu).

Talsmaður Greenpeace vill meina að við Íslendingar ættum frekar að setja peninga í rannsóknir á loftlagsbreytingum en að setja þá í hvalveiðar í vísindaskyni eða jafnvel í hvalaskoðun. Ég veit nú ekki betur en að við setjum nokkuð góðar fjárhæðir í rannsóknir á loftlagsbreytingum en ég vona að engum heilvita manni detti í hug að fara að "ríkisstyrkja" hvalaskoðun, það væri nú bara til þess að lengja í "hengingarólinni" hjá flestum þeim fyrirtækjum sem eru í þeirri atvinnugrein. Ætli það sé ekki best að leyfa fyrirtækjunum að fara "yfir um" án allra ríkisafskipta.

Höfundur er fyrrverandi stýrimaður


Sá á kvölina sem á völina (nema hann hætti við allt saman)

Ég byggi á tölum frá 2004, notast við tölur um fjölgun ferðamanna til landsins árið 2005 ásamt verðbreytingum sem orðið hafa á þessu tímabili.

Fyrir nokkru var frétt þess efnis að farþegum til landsins hefði fjölgað um 24% frá fyrra ári, þá er ekki óvarlegt að áætla að tekjum vegna hvalaskoðana hækki um 24% árið 2004 og verði þar af leiðandi 2.108.000.000 en árið 2003 voru tekjur af hvalaskoðunum 1.700.000.000 og þeir sem fóru í hvalaskoðunarferðir voru 70.000 og má einnig ætla að þeim fjölgi jafn mikið eða verði 86.800 árið 2004.

Fullorðinsgjald í hvalaskoðunarferð er 3.700 kr en fyrir börn er verðið 1.600 kr.  Gera má ráð fyrir því að 60% greiði “fullorðinsgjald” en 40% greiði “barnagjald”.

 

                        192.696.000 ef 60% greiða “fullorðinsgjald”

                          55.552.000 ef 40% greiða “barnagjald”

                        248.248.000 yrðu þá heildartekjur þeirra sem stunda hvalaskoðanir í ár

 

En við skulum líka skoða “hina hliðina á peningnum” það er að segja þær tekjur sem við myndum hafa af hvalveiðum.

Við skulum miða útreikningana við það að við stunduðum hrefnuveiðar, en hver hrefna á Japansmarkað gefur af sér um 1.800 kg af kjöti.  Verðið á þessu kjöti út úr verslun í Japan er á bilinu 30.000 Ikr til 100.000 Ikr.  Ekki er sanngjarnt að reikna útflutningstekjurnar eftir þessum verðum, því útflutningsverðmætið er aðeins 30% af þessum tölum, eða 6.923 km/kg til 23.077 kr/kg.  Nú er alveg útilokað að ein hrefna fari eingöngu í “lakari” flokkinn og eingöngu í þann “betri” svo að við “gefum” okkur að 70% af hrefnunni fari í “lakari” flokkinn og 30% fari í “betri” flokkinn, þá verður útflutningsverðmæti hrefnunnar 21.184.615 kr.  Þannig þyrfti aðeins að veiða 100 hrefnur á Japansmarkað til að skila jafnmiklum tekjum til þjóðarbúsins eins og við höfum af hvalaskoðunum.  Aðeins einn þriðji af þessum tekjum myndi renna til útgerðanna, eða 7.061.538 kr. en samt sem áður þyrfti aðeins að veiða 35 hrefnur á Japansmarkað til þess að skila útgerðinni sömu heildarveltu og hvalaskoðunarfyrirtækin eru með.

En það er ekki sanngjarnt að ætla það að hrefnan færi öll á Japansmarkað, við verðum að áætla að eitthvað færi til neyslu innanlands en málið er það að þá vantar viðmið (því eins og flestir vita þá hafa ekki verið stundaðar veiðar á hrefnu hér við land í tuttugu ár) því þarf að notast við það verð sem var fyrir hvert kg. þegar vísindaveiðarnar voru stundaðar en það var 400 kr/kg til útgerðar.  Það er staðreynd að hrefnur á innanlandsmarkað eru minni en þær hrefnur sem eru ætlaðar á Japansmarkað eða gefa frá 1.000kg af kjöti til 1.500 kg af kjöti.  Þetta þýðir að þær eru að verðmæti 400.000 kr til 600.000 en við verðum að gera okkur grein fyrir því að þetta er það sem rennur til útgerðarinnar en verð á hrefnukjöti út úr verslun er mun hærra.  Reikna má með að 70% hrefna væru  ætlaðar á Japansmarkað en 30% væru ætlaðar á innanlandsmarkað, þannig að ef ætti að veiða 300 hrefnur yrði útflutningsverðmætið 4.448.769.231 kr. tekjur útgerðarinnar af útflutningnum yrðu 1.482.923.077 kr. og tekjurnar vegna innanlandsmarkaðar yrðu 54.000.000 eða samtals yrðu tekjur útgerðarinnar af 300 hrefnum 1.536.923.077 kr.

Aftur mætti leiða að því rök að ef okkur bæri gæfa til þess að samræma hvalveiðar og hvalaskoðanir þá yrðu tekjur þjóðarbúsins (miðað við þessar forsendur) 6.556.769.231 kr. en því miður þá eru “hvalverndunarsjónarmiðin” orðin svo sterkur þáttur hjá þeim sem starfa við hvalaskoðanirnar og þetta er orðið svo mikið tilfinningamál að það verður mjög erfitt að samræma þetta tvennt.  Og núna berast þau stórtíðindi að menn séu tilbúnir til þess að “ræða” hvalveiðar innan Alþjóða hvalveiðiráðsins en eins og menn vita hefur Alþjóða hvalveiðiráðið aðeins haft algjöra friðun hvala á stefnuskrá sinni hingað til.

En þurfi að velja á milli þessara tveggja atvinnuvega verðum við að gera okkur grein fyrir að ekki er hægt að láta tilfinningar ráða ferð.

Gott dæmi um tilfinningar vegna hvalveiða er að það er mikið talað um að það sé “ómannúðlegt” að skjóta hvali.  Þá spyr ég á móti: Er “mannúðlegt” að ala upp kálfa í “sláturstærð” og senda þá síðan í sláturhús, eða ala upp grísi til slátrunar eða kjúklinga?

Nei það eru engin dráp “mannúðleg” en aftur á móti er ég nokkuð viss um það að við myndum ekki lifa lengi ef við ætluðum alltaf að hugsa um hvað væri “mannúðlegt” og hvað ekki, við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við lifum á veiðum og til að lifa af þá þarf að nýta það sem náttúran hefur upp á að bjóða og umfram allt verðum við að nýta afurðirnar í sátt við náttúruna.

 

Nú í dag hófst ráðstefna   alþjóða hvalveiðiráðsins (eða réttnefni væri náttúrlega alþjóða hvalverndarráðið) Ekki get ég með nokkru móti séð hvað þjóðir sem eru hlynntar skynsamlegri nýtingu hvala eru að gera í þessu ráði því ekki virðist með nokkru móti hægt að koma neinu tauti við þá aðila , sem hafa algjöra friðun hvala á stefnuskrá sinni.  Virðist það einnig vera að þeir sem ganga harðast fram í andstöðu sinni og beita aðferðum, sem ekki eru hefðbundin nái mestri athygli, sbr. Paul Watson og Greenpeace.

En ef baráttuaðferðir þeirra síðarnefndu eru skoðuð þá verða baráttuaðferðir þeirra sífellt ofbeldisfyllri eftir því sem árunum fjölgar.

Nú vilja Bandaríkjamenn fá svokallaðan “frumbyggjakvóta” en þeir hafa barist gegn öllum hvalveiðum af mikilli hörku og jafnvel væri hægt með góðri samvisku hægt að kalla Bandaríkjamenn mestu hvalveiðiþjóð heims því hvergi í heiminum drepst meira af höfrungum sem flækjast í “reknetum” en einmitt innan lögsögu Bandaríkjanna.

Þá má kannski benda á það að Bretar hafa ákveðið "herferð" á hendur okkur Íslendingum vegna hvalveiða okkar en það hlýtur að vekja furðu margra að Bretar skuli ekki mótmæla hvalveiðum Bandaríkjamanna en kannski það sé áætlað að það sé "auðveldara" að eiga við Íslendinga en Bandaríkjamenn.


Eru engar forsendur fyrir hvalveiðum?

Enn einu sinni hljómuðu í eyrum mér órökstuddar og hæpnar fullyrðingar um hvalveiðimál úr munni Árna Finnssonar.  Þessi maður virðist láta sér í léttu rúmi liggja þótt sannleikurinn í fullyrðingum hans sé víðs fjarri.  Enn japlar hann á þeirri gömlu „tuggu“ að markaðir séu hvergi til fyrir hvalkjöt erlendis og engir sjáanlegir markaðir fyrir hvalkjöt innanlands.

Eins og Árni veit, og margsinnis hefur verið bent á, hafa hvalveiðar í atvinnuskini verið bannaðar í 20 ár. Þá er kannski vert að rifja það upp að ekki voru til markaðir fyrir hvalaskoðanir, þegar þær hófust.  Af því leiðir að sjálfsögðu að fullkomlega er eðlilegt að markaðir séu ekki fyrir hendi meðan svo háttar til, - en það vita þeir sem vita vilja að eftirspurnin er fyrir hendi, enda hafa rannsóknir leitt það í ljós að hvalkjötið inniheldur mikið af Omega 3 fitusýrum og öðrum hollum og góðum efnum.  Það er því augljóst að markaðir fyrir hvalaafurðir verða ekki vandamál þegar að því kemur að veiðar verða leyfðar á ný í atvinnuskini.  Fullyrðingar Árna og hans nóta um að markaður sé enginn fyrir hvalkjöt innanlands eru nánast hlægilegar og því læt ég mér þær í léttu rúmi liggja, enda um fjarstæðu eina að ræða sem ekki er svara verð.

Árni segir að birgðir hvalkjöts safnist upp í landinu af því að enginn vilji kaupa.  Þær eru þó ekki meiri en svo, - þessar miklu birgðir, - að erfitt er orðið að fá kjötið keypt eða nánast ekki hægt  af því að það virðist uppurið.  Um síðustu helgi ætlaði ég, til dæmis, að kaupa hrefnukjöt á grillið, enda eitthvert besta kjöt til grillunar sem völ á.  Hrefnukjöt í þeirri verslun sem ég skipti við er ekki lengur fáanlegt og heldur ekki í öðrum verslunum sem ég hafði spurnir af.  Þetta er meira en lítið undarlegt ef miklar birgðir eru til í landinu af jafn  hollri og góðri vöru!

Skyldi það geta verið að talið um hrefnukjötsbirgðirnar séu aðeins einn liður í ómerkilegum áróðri hvalaskoðunarmanna ?  Ljótt er ef satt reyndist.  Væri annars til of mikils mælst að Árni og félagar létu mig og aðra vita hvar allt þetta dýrindis hrefnukjöt er niður komið svo að mönnum takist  að fá, þótt ekki væri nema í eitt skipti , ofurlítinn bita á grillið!

Árni virðist halda að vísindarannsóknir tengdar hvalveiðum stundi menn bara sér til gamans og niðurstöður rannsóknanna séu lítils eða einskis virði. Virðist eins og maðurinn sé í skógarferð - svo vitnað sé í fótboltann - því að ekki er annað að sjá en hann hafi enga hugmynd um hvað hann er að tala.

Árni virðist mest stjórnast af tilfinningum, óháður rökum og sannleika. Hins vegar verður að gera þær kröfur til manns  sem er forsvarsmaður samtaka  að hann fari með rétt mál og láti ekki tilfinningar eða skort á tilfinningum ráða orðum sínum og gjörðum.

Þeir sem um þessi mál hugsa sjá lítið vit í því að hinn gífurlegi fjöldi hvala sem orðinn er kringum Ísland fái að fjölga sér óhindrað og raska þannig jafnvægi náttúrunnar.  Það hafa aldrei verið forsendur fyrir hvalveiðibanni við Ísland .  Það vita allir, sem til þekkja, að á meðan Íslendingar fengu að stunda hvalveiðar í friði voru þær stundaðar í hófi og af mikilli ábyrgð.  Nú virðist svo komið eftir 20 ára hlé að hvalveiðar eru orðnar þjóðarnauðsyn til að koma í veg fyrir stórfellda röskun á lífríki sjávarins.

ESB-umræða

Ég var að lesa blogg Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Nú þekki ég hvorki haus né sporð á þessari góðu konu (Önnu Ólafsdóttur Björnsson) en skrif hennar fannst mér einkennast af afturhaldssemi og gömlum "Davíðskreddum", sem sagt ég hafði það á tilfinningunni að hún væri mikil Sjálfstæðismanneskja og "Davíðssinni" og "klukkan"hjá henni hefði bara stoppað þegar Davíð Oddson var forsætisráðherra.

Það sem ég er sammála í stefnu Samfylkingarinnar er stefna hennar í Evrópumálunum, í það minnsta þarf að ræða þessi mál því það er alveg ljóst að EES-samningurinn er engan veginn fullnægjandi og það er bara tímaspursmál hvenær ESB-menn láta þennan samning lönd og leið.


Afleiðing kvótakerfisins?

Erum við að sjá hversu gott fyrir byggðir landsins kvótakerfið er, þegar staðan á Flateyri er skoðuð?

Framkvæmdastjóri Kambs á Flateyri talar þar um hátt gengi, hátt verð á leigukvóta og lágt afurðaverð.  Svolítið finnst mér nú ódýrt að tala um hátt gengi en það eru útgerðarmenn sem hafa lagst gegn því að aðild að ESB verði skoðuð og þar með að evran verði tekin upp, en það myndi koma í veg fyrir gengissveiflur eins og við þekkjum þær í dag og tryggja stöðugleika í gengismálum.  þau fáránlegu lög sem eru í gildi hér á landi, sem banna erlenda eignaraðild að sjávarútvegsfyrirtækjum, þessi lög eru svo algjörlega út úr kortinu og vinna á móti atvinnugreininni, t.d vantar fjármagn inn í greinina en það vantar ekki lánsfjármagn (sem er  víst ekki á lausu eins og staðan er) og eins og allir vita þá er lánsfjármagn á Íslandi dýrt og ekki á færi fyrirtækis sem berst í bökkum að nýta sér það.  Verð á leigukvóta er vissulega hátt og þar sem´mjög lítið framboð er af kvóta til leigu er verðið á honum mjög hátt (þar ráða markaðsöflin; framboð og eftirspurn) og þarna erum við komin að kjarna málsins það þarf að gera breytingar á kvótakerfinu og það strax.  Afurðaverðið hangir að miklu leyti saman við gengið og það er lítið hægt að gera í því nema að breytingar verði gerðar á efnahagsstefnu landsins.


Fiskveiðistefnan

Fiskveiðistjórnunartæki eða hagsmunaverndun? Margt hefur verið talað og ritað um kvótakerfið síðan það var tekið upp, í íslenskum sjávarútvegi, og sýnist sitt hverjum. Við getum gengið út frá því, að þeir sem, á sínum tíma fengu úthlutað leyfi til þess að nýta auðlind þjóðarinnar eins og þeir nánast vildu, eru þessu kerfi mjög hlynntir og segja það það besta sem völ er á, bæði til þess að vernda fiskistofnana og að auka hagkvæmni í rekstri útgerðar.  En aftur á móti þeir sem ekki njóta þeirra forréttinda að fá úthlutað á hverju ári nokkrum tugum milljóna, af sameiginlegri eign þjóðarinnar (skv. 2. gr. stjórnarskrárinnar), hafa aðra skoðun og sýn til framkvæmdarinnar á kvótakerfinu.Menn geta gefið sér; að ekki verði hróflað við kvótakerfinu. Til þess eru hagsmunasamtökin allt of sterk og virðast, því miður, hafa það sterk ítök og ekkert bendir til að þar verði breyting á.Nú er svo komið að þessi þjóðareign, sem er fiskurinn í sjónum, er komin í hendurnar á örfáum stórum aðilum og það er nánast ógerlegt fyrir nýja aðila að komast inn í útvegsgeirann.Útgerðaraðilar sem hafa fengið úthlutað veiðiheimildum (án endurgjalds) að virði margra tuga milljóna, hafa leigt þennan sama kvóta og sent skip sín til veiða á fjarlæg mið og þannig fjármagnað smíði á nýjum og afkastamiklum skipum.  Aðrir hafa byggt upp stórútgerðarveldi og ber í því sambandi að nefna að kvótaúthlutunin átti stærstan þátt í uppbyggingunni, en dæmi um þetta verður tekið síðar.Að margra áliti stöndum við á tímamótum. En á þessum tímamótum verðum við að staldra við og ákveða hvernig lífskjörin í þessu landi eiga að vera.  Á að verða hér forréttindastétt, sem verður leyft að athafna sig (næstum því að eigin vild), í auðlegð þjóðarinnar, eða ætlum við að koma upp réttlátara fiskveiðistjórnunarkerfi og þá um leið að gera mönnum mögulegt að horfast í augu við næsta mann og geta sagt? Ég hef komist áfram á eigin forsendum og ágætum en ekki af því að ég fæddist inn í vissan forréttindahóp.  En þannig er veruleikinn í dag. Kvótakerfið og það sem það hefur gertMargir hafa velt fyrir sér hvert sé hið raunverulega markmið kvótakerfisins og hvort það þjóni í raun og veru hagsmunum allrar þjóðarinnar eða hvort sé verið að þjóna hagsmunum örfárra aðila.  Hér á eftir verða talin upp helstu markmið þessa umdeilda kerfis:
  • Upphaflegt markmið kvótakerfisins var að sjálfsögðu að vernda fiskistofnana við landið og bæta sóknarstjórnunina.
  • Kvótakerfið átti að vernda byggð í landinu, þannig að smærri byggðarlög yrðu  ekki afskipt. Kvótakerfið átti með öðrum orðum að verða eitt verkfæra hinnar svokölluðu byggðastefnu.
  • Kvótakerfið átti að auka mikið afrakstur fiskimiðanna, allur afli átti að koma að landi og menn áttu að auka sóknina í verðmætari og vannýttar fisktegundir.  Með því að stýra sókninni átti að verða hagkvæmara að vinna aflann, það átti að verða hagkvæmara að vinna aflann, það átti að auka útflutningsverðmæti aflans  og mikil hagkvæmni átti að nást við vinnslu hans.
 En hver varð raunin?  Náðist að uppfylla þær væntingar, sem voru gerðar til fiskveiðistjórnunarinnar og hver varð svo fórnarkostnaðurinn? Að hluta til verður að viðurkennast að það hefur tekist að vernda fiskistofnana gegn ofveiði (þótt ekki séu fiskifræðingar sammála um það), því tekist hefur að mestu leyti að koma í veg fyrir ofveiði á helstu fiskistofnum landsins. Þá er ekki beinlínis  hægt að segja að kvótakerfið sjálft hafi brugðist, heldur er það  útfærslan á því sem hefur verið hvað alvarlegust og meðal annars orðið til þess að heilu byggðarlögin eru að leggjast í auðn..En hefur tekist að bæta sóknarstjórnunina og nýtingu aflans?  Að hluta til hefur sóknarstjórnunin verið bætt, en á öllum málum eru tvær hliðar. Sem dæmi má nefna skip sem á lítinn kvóta eftir af einni fiskitegund, þar er reynt að forðast þau fiskimið, þar sem eru líkur á að sú fiskitegund haldi sig, en ef þannig vill til að umrædd tegund slæðist með í veiðarfærin er þessari fisktegund bara hent í hafið aftur til þess að hún komi ekki til frádráttar þeim litla kvóta sem eftir er.  Undirritaður  var mörg ár til sjós og aldrei upplifði ég það að aðeins ein fisktegund kæmi í trollið eða þá að fiskurinn bærist eftir fyrirfram gerðri pöntun.  Það er á margra vitorði að vegna þess hvernig verðlagið er á fiski, koma netaveiðibátar aðeinsmeð fisk að landi, sem er lifandi þegar hann kemur inn fyrir borðstokkinn, að öðrum kosti er hann of verðlítill. Það verður að ná hámarksverði fyrir hvert kíló af kvótanum og þar af leiðandi er dauðum fiski bara hent aftur í sjóinn.  Hvernig sem á því stendur þá er ekki lengur landað tveggja nátta fiski.Hefur kvótakerfið orðið til þess að þjappa saman byggð í landinu og vernda þau þau byggðarlög, sem hafa staðið höllum fæti gagnvart stærri byggðarlögum?Ekki er nokkur vafi á því að kvótinn hefur beint og óbeint orðið til þess að margar byggðir þessa lands eru að leggjast í auðn og aðrar að stækka og eflast eins og t.d Akureyri.  En þar á bæ  hafa t.d Samherjamenn verið mjög duglegir að kaupa upp kvóta á minni stöðum og flutt hann  eftir hæfilegan tíma, til Akureyrar. Þar með er það byggðarlag, sem kvótinn var keyptur frá, skilið eftir í sárum, þannig að fólkið sem þar býr hefur engin úrræði önnur en að fara frá verðlausum eignum sínum og byrja lífið frá grunni, á stöðum sem enn hafa kvóta, t.d Akureyri.Fyrst er verið að skrifa um Samherja er ekki úr vegi að rifja aðeins upp hvert var upphafið af  því stórveldi.  Eins og kunnugt er , þá keyptu þeir frændur, Þorsteinn Már Baldvinsson, Þorsteinn Vilhelmsson og Kristján Vilhelmsson, skuttogarann Guðstein GK, sem hafði verið lagt í höfninni í Hafnarfirði.  Þessum skuttogara breyttu þeir síðan í Slippstöðinni á Akureyri í frystitogara.  Þegar þessum breytingum var að verða lokið var kvótakerfinu skellt á.  Þorsteinn Vilhelmsson, einn Samherjamannanna, hafði áður en þetta ævintýri hófst verið mjög fengsæll skipstjóri hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Á þeirri forsendu fóru þeir frændur fram á að sá kvóti sem fylgdi skipinu, sem Þorsteinn Vilhelmsson hafði verið skipstjóri á og vissulega átt þátt í að afla þessu skipi. Reglurnar varðandi úthlutun kvóta voru þannig að veiðireynsla síðustu þriggja ára voru hafðar til grundvallar við útreikning kvótans fyrir árið, en færi skipstjóri til annarrar útgerðar var heimild til þess að kvótinn af fyrra skipi fylgdi honum yfir á næsta skip.  Gengið var að þessu en ekki veit ég hvort Útgerðarfélagi Akureyringa var bættur kvótamissirinn.  Í dag er Samherji hf. eitthvert stærsta og öflugasta útgerðarfyrirtæki landsins. Ekki er hægt að segja að framganga þeirra frænda stafi eingöngu af úthlutun aflaheimilda, því þeir hafa rekið fyrirtæki sitt mjög vel. En það skemmir ekki fyrir að utanaðkomandi aðstæður hafa verið þeim afskaplega hagstæðar, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið.  Einnig er það umhugsunarefni hvernig einn þeirra frænda gat gengið út úr fyrirtækinu með þrjá milljarða eftir innan við tuttugu ára veru í fyrirtækinu.  Góð ávöxtun það.Annan útgerðarmann veit ég um sem fékk úthlutað nokkuð stórum “kvóta” af rækju.  Þessi úthlutun kom sem himnasending fyrir hann því hann var að láta smíða fyrir sig stórt og fullkomið skip. Í stað þess að láta skipið sitt veiða úthlutaðan “kvóta” var skipið sent til veiða á Flæmska hattinn og kvótinn leigður út, til þess að fjármagna smíðina á nýja skipinu.  Sjálfsagt eru dæmin um svona ráðstöfun á úthlutuðum veiðiheimildum mörg, að gera svona er örugglega fullkomlega löglegt, en okkur, sauðsvörtum almúganum, þykir þetta siðlaust. En hefur sóknin í verðmætari tegundir aukist?Svarið við þessari spurningu er , en ekki tel ég að hægt sé að þakka það kvótakerfinu, heldur hafa aðstæður breyst. Sérstaklega hafa orðið miklar breytingar á flutningatækninni, en þessi framþróun hefur fært alla markaði nær okkur, þannig að við höfum getað gefið meiri gaum að sjávarfangi, sem selst fyrir hátt verð á erlendum mörkuðum t.d er Asíumarkaður alltaf að stækka. Leiðir til úrbótaEn er þá kvótakerfið alvont og er þá ekkert annað með það að gera en að kasta því og veðja á eitthvað annað fiskveiðistjórnunarkerfi?  Ekki tel ég að svo sé og sú skoðun mín hefur komið fram áður að kvótakerfið sem slíkt hafi ekki brugðist heldur framkvæmdin á því.  Ég hef engan hitt sem ekki er á því að við þurfum á sóknarstýringu að halda. Hér á eftir fara hugmyndir mínar um hvernig eigi að nýta fiskinn í sjónum til hagsbóta fyrir þegna þessa lands og þá meina ég alla þegna þessa lands, ekki suma. Fyrst og fremst tel ég að deila eigi kvótanum á milli byggðarlaga.  Segjum sem svo að Þorlákshöfn væri úthlutað 5000 tonna þorskkvóta.  Í Þorlákshöfn landaði síðan bátur 20 tonnum af þorski, þessi 20 tonn myndu dragast frá heildar þorskkvóta Þorlákshafnar, þannig að þar væru eftir 4980 tonn af þorski.  En nú á útgerð þessa báts eftir að greiða fyrir að veiða þessi 20 tonn af þorski og væri gjaldið eitthvað hlutfall af aflaverðmætinu, t.d 10%.  Nú kunna ýmsir að reka upp ramakvein, en ég minni á það að það þurfa allar greinar iðnaðar að greiða gjald fyrir það hráefni sem er notað og því skyldi ekki útgerð gera það líka?  Þessi tekjustofn yrði síðan notaður til þess að fjármagna hafrannsóknir, veiðieftirlit og landhelgisgæslu. Með ráðstöfun af þessu tagi væri komið í veg fyrir að kvóti safnist til örfárra aðila og einnig að byggð myndi lítið sem ekkert raskast en gæti styrkst aftur. Með því að nota þessa aðferð við veiðistjórnunina væri komið í veg fyrir svokallað kvótabrask og fiskvinnslan í landi gæti sérhæft vinnslu sína. Í þessari grein minni hef ég reynt að draga fram helstu kosti og galla kvótakerfisins eins og það er í dag. Ekki tókst mér nú að finna marga kosti við það en ekki var erfitt að koma auga á gallana.Það er ekki hægt að gera tæmandi úttekt á fiskveiðikerfinu okkar í einni grein en ég vona að mér hafi tekist að koma skoðunum mínum þokkalega á framfæri.

Völd, eru þau málið?

Nú þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, er komin í stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn, fyrir hönd Samfylkingarinnar og hefur étið ofan í sig svo til öll stóru orðin í kosningabaráttunni, þá er eins gott fyrir hana að standa við helstu stefnumál Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni og þar var stærsta málið að eyða biðlistunum í heilbrigðiskerfinu.  Eða skyldi það vera meira mál fyrir hana að komast í ríkisstjórn?  Ekki kæmi það mér á óvart.  Að mínum dómi gæti fátt orðið verra en að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði næsti utanríkisráðherra Íslands.

 


Vol, væl og ósannindi

ENN einu sinni kom Árni Finnsson "vælandi" í útvarpið og sagði að hvalveiðar Íslendinga sköðuðu ferðaþjónustuna. Í þetta sinn var það ekki eingöngu hvalaskoðun sem skaðaðist heldur ferðaþjónustan í heild sinni.

Ekki frekar en áður rökstuddi hann þessa fullyrðingu sína á nokkurn hátt, heldur sló hann þessum rakalausa þvættingi fram, hann virðist halda að við sem hlustum látum bara "mata" okkur á hvaða þvælu sem er og "gleypum" við öllu sem sagt er án umhugsunar.

Hann virðist hafa gleymt skýrslu ferðamálaráðs, var niðurstaða hennar sú að hvalveiðar hefðu engin áhrif á ferðaþjónustuna. Honum til upplýsingar eru þeir þættir sem helst hafa áhrif á ferðaþjónustuna gengismál, veðurfar, markaðssetning á vörum og þjónustu, almennt verðlag, afþreyingarmöguleikar og ferðamöguleikar til og frá landinu.

Þá er það skondinn hlutur, en hvalaskoðunarmenn hafa verið mikið í því að segja að ekki sé neinn markaður fyrir hrefnukjöt innanlands, en nú bregður svo við að ekki er hægt að anna eftirspurn eftir þessari vöru og ef svo heldur fram sem horfir eru allar líkur á að það þurfi að fjölga þeim dýrum sem má veiða. Almenningur er búinn að átta sig á því hversu gott hráefni er þarna um að ræða og einnig ódýrt. En það er ekki úr vegi að ræða þá gríðarlegu fjölgun hvala sem orðið hefur við strendur landsins þau ár sem hvalveiðar hafa verið bannaðar. Greinilegt er að náttúran ber ekki þessa gríðarlegu fjölgun og sést það best á því að æti er ekki til staðar fyrir allan þennan fjölda. Hrefnuveiðimenn hafa kvartað yfir því að hrefnan sé stygg og því erfitt að nálgast hana, sem komi til af því að hún sé í litlu æti og dýrin séu horuð og magainnihald þeirra dýra sem hafi veiðst sé lítið. Því er nauðsynlegt að auka við þann fjölda dýra sem leyfilegt er að veiða og stórauka svo kvótann á næsta ári. Ekki kæmi mér á óvart að hvalaskoðunarmenn vildu láta banna loðnuveiðar, síldveiðar og þorskveiðar til þess að nægt æti yrði fyrir hvalina, en þeir hugsa ekki fyrir því að við þurfum að lifa hér á þessu landi, ekki getum við lifað af hvalaskoðun því ekki er afkoman í greininni neitt til þess að hrópa húrra fyrir og ekki hef ég trú á að afkoman batni. Þessu til staðfestingar skulum við skoða tölur frá árinu 2004: Samkvæmt tölum frá Ferðamálaráði og frá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands voru tekjur af hvalaskoðun 1.900.000.000. Enginn ágreiningur er um þessa tölu (ekki svo mér sé kunnugt um) en hins vegar segja heimildir Ferðamálaráðs að farþegar í hvalaskoðunarferðum hafi verið 72.200 en Hvalaskoðunarsamtök Íslands segja fjölda farþega hafa verið rúmlega 81.000 (hvernig á þessum mismuni stendur veit ég ekki). Samkvæmt tölunum frá Ferðamálaráði hefur hver farþegi í hvalaskoðun skilið eftir tekjur til þjóðfélagsins sem nema 26.316 kr., en samkvæmt Hvalaskoðunarsamtökum Íslands hafa tekjurnar af hverjum farþega verið 23.457 kr. Til þess að taka af allan vafa þá er þarna um heildartekjur að ræða, þ.e.a.s eftir er að taka þarna af fargjald til hvalaskoðunarbátanna, sem var árið 2004 að meðaltali 3.700 kr. fyrir fullorðna og 1.600 kr. fyrir börn. Þá er að reikna út heildartekjur hvalaskoðunarfyrirtækjanna og verður byrjað á því að styðjast við fjölda farþega skv. Ferðamálaráði, einnig verð ég að gefa mér forsendur, en mér þykir ekki fjarri lagi að áætla að 60% farþega hafi greitt fullorðinsgjald og þá að 40% þeirra hafi greitt barnagjald.

Miðað við 72.200 farþega voru tekjurnar sem hér segir:

160.284.000 fyrir fullorðinsgjaldið

46.208.000 fyrir barnagjaldið

206.492.000 var þá heildarveltan skv. Ferðamálaráði.

En miðað við 81.000 farþega voru tekjurnar þessar:

179.820.000 fyrir fullorðinsgjaldið

51.840.000 fyrir barnagjaldið

231.660.000 var þá heildarveltan skv. Hvalaskoðunarsamtökum Íslands.

Svo getur fólk velt því fyrir sér hvort líklegt sé að þessar tekjur geti staðið undir öllum þeim kostnaði sem til féll, hvor talan sem tekin er gild. Í það minnsta þykir mér ekki fara mikið fyrir þessum "blómlega" atvinnuvegi , sem hvalaskoðunarmenn eru alltaf að tala um. Ef þessar tölur eru skoðaðar læðist að manni að hvalaskoðunarmenn ættu að snúa sér að einhverju öðru sem gæti kannski skilað einhverjum arði, kannski ættu þeir að leggja stund á hvalveiðar, þegar þær verða leyfðar fyrir alvöru?

Höfundur er fyrrverandi stýrimaður.


"Pilsnerfylgi"

TILEFNI skrifa minna er fylgistap Samfylkingarinnar og ummæli formanns hennar fyrir ekki svo löngu síðan.

En fyrst skulum við fara aftur til þess tíma, er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sóttist eftir því að verða formaður Samfylkingarinnar (illu heilli fyrir Samfylkinguna). Upphaflega voru rök stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar þau, að fyrst og fremst væri hún kona og bentu á árangur hennar þegar hún var borgarstjóri og því var haldið fram að hún væri manna líklegust til þess að bæta við fylgi Samfylkingarinnar og með framgöngu sinni og "persónutöfrum" myndi hún gera Samfylkinguna að "trúverðugu" stjórnmálaafli (þurfti þess?). En þetta hefur ekki gengið eftir, þvert á móti, fylgið við flokkinn dalar endalaust og hún sagði í ræðustól á Alþingi að Framsóknarflokkurinn væri með "pilsnerfylgi" og hefur væntanlega átt við að fylgi flokksins væri um 2,25% sem er áfengisstyrkleiki pilsners, en það sem hefur gerst síðan er að Framsóknarflokkurinn hefur aðeins verið að auka fylgi sitt en Samfylkingin, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, er sífellt að mælast með minna fylgi og er svo komið að hún er komin í "léttvínsfylgi" en það er huggun harmi gegn að léttvín hefur áfengisstyrkleika frá 13–14% í rétt um 20%. Þannig að það er hægt að vera nokkuð lengi í "Léttvínsfylgi" en á eftir því kemur svokallað "Bjórfylgi"en það getur verið frá 2,25% upp í 12%, þá kemur "pilsnerfylgið", en það er 2,25%, svo kemur "léttbjórsfylgið" en það er eins og allir að vita 0%.

Skyldi Samfylkingin, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar, verða komin í "bjórfylgi" eða alla leið niður í "léttbjórsfylgi" þegar kemur að kosningum í vor?

En hvað skyldi það vera sem veldur þessu fylgistapi Samfylkingarinnar? Ekki er hægt að benda á neina sérstaka ástæðu, nema formann flokksins Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og framgöngu hennar undanfarin misseri og skal nú bent á nokkur atriði:

Alltaf þegar hún fer í ræðustól á hinu háa Alþingi talar hún í nöldurtóni, hún er reið og menn taka ekki orðið mark á því sem hún segir, hún talar alltaf í sama reiðitóninum, væntanlega til þess að leggja aukna áherslu á það sem hún er að segja en þetta hefur þveröfug áhrif.

Allt sem ekki gengur upp er ríkisstjórninni og stefnu hennar að kenna.

Hún hefur sagt það að fólk treysti ekki þingmönnum Samfylkingarinnar til að fara með stjórn landsmálanna (þetta atriði að lýsa yfir vantrausti á þingflokk sinn er algjört einsdæmi, á sér ekki nokkra hliðstæðu)

Hún hefur margsinnis tekið upp mál sem aðrir flokkar eru með og hafa notið fylgis, tekið þau mál upp sem málefni Samfylkingarinnar og snúist í marga hringi eftir því hvaða mál eru líkleg til vinsælda. En það sem hún hefur ekki áttað sig á er að kjósendur sjá í gegnum þessi "loddarabrögð" hennar. Öfugt við Ingibjörgu Sólrúnu hefur Steingrímur J. Sigfússon verið með skýr stefnumál og staðið við þau. Kannski skýrir þessi punktur að mestu leyti fylgi vinstri grænna.

Hún hefur "fælt" í burtu marga af helstu þungavigtarmönnum og -konum Samfylkingarinnar og má þar nefna Margréti Frímannsdóttur, Jóhann Ársælsson, Bryndísi Hlöðversdóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur.

Um er að ræða manneskju, sem oft hefur verið staðin að því að umgangast sannleikann af "léttúð". þetta eru kjósendur búnir að sjá og því er trúverðugleiki hennar afskaplega lítill og ekki mikið á henni og hennar orðum að byggja.

Hún hefur ekki náð neinum "pólitískum" þroska. Þetta segi ég vegna þess að síðan 1983 að Kvennalistinn var stofnaður hefur hún verið föst í sömu málum og þá og má segja að smám saman hafi hún breytt Samfylkingunni í Kvennalista.

Stjórnunarstíll Ingibjargar Sólrúnar á ekkert skylt við lýðræði og sá sem er henni ekki sammála og lætur það í ljósi á ekki sjö dagana sæla og er þarna kannski komin skýringin á flótta þungavigtarmanna og -kvenna úr þingflokki Samfylkingarinnar.

Dæmi um mál sem hún áleit að myndi verða "vinsælt" er að þegar umræðan um að taka upp evruna kom upp þá fullyrti hún að krónan ætti sök á háu matvælaverði og væri "handónýt" og bæri því að taka upp evruna. En er það ekki staðreyndin að það er Ingibjörg Sólrún sem er handónýt og því beri að losa sig við hana?

Að mínum dómi er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ofmetnasti stjórnmálamaður landsins, hún gerði marga góða hluti sem borgarstjóri í Reykjavík en eftir að hún kom að landsmálunum má segja að henni hafa verið afskaplega mislagðar hendur, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið og framganga hennar hefur valdið mörgum vonbrigðum.

En það er nokkuð víst að margir Samfylkingarmenn og -konur horfa til þess tíma með söknuði, þegar Össur Skarphéðinsson var formaður Samfylkingarinnar, þá var stöðug aukning á fylginu, en eftir að Ingibjörg Sólrún varð formaður hefur fylgistapið verið stöðugt og sér ekki fyrir endann á því að öllu óbreyttu.

Það skal tekið fram að allt sem fram kemur í grein þessari eru persónulegar skoðanir undirritaðs

Höfundur er fyrrverandi stýrimaður.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband