"Pilsnerfylgi"

TILEFNI skrifa minna er fylgistap Samfylkingarinnar og ummæli formanns hennar fyrir ekki svo löngu síðan.

En fyrst skulum við fara aftur til þess tíma, er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sóttist eftir því að verða formaður Samfylkingarinnar (illu heilli fyrir Samfylkinguna). Upphaflega voru rök stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar þau, að fyrst og fremst væri hún kona og bentu á árangur hennar þegar hún var borgarstjóri og því var haldið fram að hún væri manna líklegust til þess að bæta við fylgi Samfylkingarinnar og með framgöngu sinni og "persónutöfrum" myndi hún gera Samfylkinguna að "trúverðugu" stjórnmálaafli (þurfti þess?). En þetta hefur ekki gengið eftir, þvert á móti, fylgið við flokkinn dalar endalaust og hún sagði í ræðustól á Alþingi að Framsóknarflokkurinn væri með "pilsnerfylgi" og hefur væntanlega átt við að fylgi flokksins væri um 2,25% sem er áfengisstyrkleiki pilsners, en það sem hefur gerst síðan er að Framsóknarflokkurinn hefur aðeins verið að auka fylgi sitt en Samfylkingin, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, er sífellt að mælast með minna fylgi og er svo komið að hún er komin í "léttvínsfylgi" en það er huggun harmi gegn að léttvín hefur áfengisstyrkleika frá 13–14% í rétt um 20%. Þannig að það er hægt að vera nokkuð lengi í "Léttvínsfylgi" en á eftir því kemur svokallað "Bjórfylgi"en það getur verið frá 2,25% upp í 12%, þá kemur "pilsnerfylgið", en það er 2,25%, svo kemur "léttbjórsfylgið" en það er eins og allir að vita 0%.

Skyldi Samfylkingin, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar, verða komin í "bjórfylgi" eða alla leið niður í "léttbjórsfylgi" þegar kemur að kosningum í vor?

En hvað skyldi það vera sem veldur þessu fylgistapi Samfylkingarinnar? Ekki er hægt að benda á neina sérstaka ástæðu, nema formann flokksins Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og framgöngu hennar undanfarin misseri og skal nú bent á nokkur atriði:

Alltaf þegar hún fer í ræðustól á hinu háa Alþingi talar hún í nöldurtóni, hún er reið og menn taka ekki orðið mark á því sem hún segir, hún talar alltaf í sama reiðitóninum, væntanlega til þess að leggja aukna áherslu á það sem hún er að segja en þetta hefur þveröfug áhrif.

Allt sem ekki gengur upp er ríkisstjórninni og stefnu hennar að kenna.

Hún hefur sagt það að fólk treysti ekki þingmönnum Samfylkingarinnar til að fara með stjórn landsmálanna (þetta atriði að lýsa yfir vantrausti á þingflokk sinn er algjört einsdæmi, á sér ekki nokkra hliðstæðu)

Hún hefur margsinnis tekið upp mál sem aðrir flokkar eru með og hafa notið fylgis, tekið þau mál upp sem málefni Samfylkingarinnar og snúist í marga hringi eftir því hvaða mál eru líkleg til vinsælda. En það sem hún hefur ekki áttað sig á er að kjósendur sjá í gegnum þessi "loddarabrögð" hennar. Öfugt við Ingibjörgu Sólrúnu hefur Steingrímur J. Sigfússon verið með skýr stefnumál og staðið við þau. Kannski skýrir þessi punktur að mestu leyti fylgi vinstri grænna.

Hún hefur "fælt" í burtu marga af helstu þungavigtarmönnum og -konum Samfylkingarinnar og má þar nefna Margréti Frímannsdóttur, Jóhann Ársælsson, Bryndísi Hlöðversdóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur.

Um er að ræða manneskju, sem oft hefur verið staðin að því að umgangast sannleikann af "léttúð". þetta eru kjósendur búnir að sjá og því er trúverðugleiki hennar afskaplega lítill og ekki mikið á henni og hennar orðum að byggja.

Hún hefur ekki náð neinum "pólitískum" þroska. Þetta segi ég vegna þess að síðan 1983 að Kvennalistinn var stofnaður hefur hún verið föst í sömu málum og þá og má segja að smám saman hafi hún breytt Samfylkingunni í Kvennalista.

Stjórnunarstíll Ingibjargar Sólrúnar á ekkert skylt við lýðræði og sá sem er henni ekki sammála og lætur það í ljósi á ekki sjö dagana sæla og er þarna kannski komin skýringin á flótta þungavigtarmanna og -kvenna úr þingflokki Samfylkingarinnar.

Dæmi um mál sem hún áleit að myndi verða "vinsælt" er að þegar umræðan um að taka upp evruna kom upp þá fullyrti hún að krónan ætti sök á háu matvælaverði og væri "handónýt" og bæri því að taka upp evruna. En er það ekki staðreyndin að það er Ingibjörg Sólrún sem er handónýt og því beri að losa sig við hana?

Að mínum dómi er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ofmetnasti stjórnmálamaður landsins, hún gerði marga góða hluti sem borgarstjóri í Reykjavík en eftir að hún kom að landsmálunum má segja að henni hafa verið afskaplega mislagðar hendur, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið og framganga hennar hefur valdið mörgum vonbrigðum.

En það er nokkuð víst að margir Samfylkingarmenn og -konur horfa til þess tíma með söknuði, þegar Össur Skarphéðinsson var formaður Samfylkingarinnar, þá var stöðug aukning á fylginu, en eftir að Ingibjörg Sólrún varð formaður hefur fylgistapið verið stöðugt og sér ekki fyrir endann á því að öllu óbreyttu.

Það skal tekið fram að allt sem fram kemur í grein þessari eru persónulegar skoðanir undirritaðs

Höfundur er fyrrverandi stýrimaður.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og ellefu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband