18.5.2007 | 09:51
Fiskveiðistefnan
Fiskveiðistjórnunartæki eða hagsmunaverndun? Margt hefur verið talað og ritað um kvótakerfið síðan það var tekið upp, í íslenskum sjávarútvegi, og sýnist sitt hverjum. Við getum gengið út frá því, að þeir sem, á sínum tíma fengu úthlutað leyfi til þess að nýta auðlind þjóðarinnar eins og þeir nánast vildu, eru þessu kerfi mjög hlynntir og segja það það besta sem völ er á, bæði til þess að vernda fiskistofnana og að auka hagkvæmni í rekstri útgerðar. En aftur á móti þeir sem ekki njóta þeirra forréttinda að fá úthlutað á hverju ári nokkrum tugum milljóna, af sameiginlegri eign þjóðarinnar (skv. 2. gr. stjórnarskrárinnar), hafa aðra skoðun og sýn til framkvæmdarinnar á kvótakerfinu.Menn geta gefið sér; að ekki verði hróflað við kvótakerfinu. Til þess eru hagsmunasamtökin allt of sterk og virðast, því miður, hafa það sterk ítök og ekkert bendir til að þar verði breyting á.Nú er svo komið að þessi þjóðareign, sem er fiskurinn í sjónum, er komin í hendurnar á örfáum stórum aðilum og það er nánast ógerlegt fyrir nýja aðila að komast inn í útvegsgeirann.Útgerðaraðilar sem hafa fengið úthlutað veiðiheimildum (án endurgjalds) að virði margra tuga milljóna, hafa leigt þennan sama kvóta og sent skip sín til veiða á fjarlæg mið og þannig fjármagnað smíði á nýjum og afkastamiklum skipum. Aðrir hafa byggt upp stórútgerðarveldi og ber í því sambandi að nefna að kvótaúthlutunin átti stærstan þátt í uppbyggingunni, en dæmi um þetta verður tekið síðar.Að margra áliti stöndum við á tímamótum. En á þessum tímamótum verðum við að staldra við og ákveða hvernig lífskjörin í þessu landi eiga að vera. Á að verða hér forréttindastétt, sem verður leyft að athafna sig (næstum því að eigin vild), í auðlegð þjóðarinnar, eða ætlum við að koma upp réttlátara fiskveiðistjórnunarkerfi og þá um leið að gera mönnum mögulegt að horfast í augu við næsta mann og geta sagt? Ég hef komist áfram á eigin forsendum og ágætum en ekki af því að ég fæddist inn í vissan forréttindahóp. En þannig er veruleikinn í dag. Kvótakerfið og það sem það hefur gertMargir hafa velt fyrir sér hvert sé hið raunverulega markmið kvótakerfisins og hvort það þjóni í raun og veru hagsmunum allrar þjóðarinnar eða hvort sé verið að þjóna hagsmunum örfárra aðila. Hér á eftir verða talin upp helstu markmið þessa umdeilda kerfis:
- Upphaflegt markmið kvótakerfisins var að sjálfsögðu að vernda fiskistofnana við landið og bæta sóknarstjórnunina.
- Kvótakerfið átti að vernda byggð í landinu, þannig að smærri byggðarlög yrðu ekki afskipt. Kvótakerfið átti með öðrum orðum að verða eitt verkfæra hinnar svokölluðu byggðastefnu.
- Kvótakerfið átti að auka mikið afrakstur fiskimiðanna, allur afli átti að koma að landi og menn áttu að auka sóknina í verðmætari og vannýttar fisktegundir. Með því að stýra sókninni átti að verða hagkvæmara að vinna aflann, það átti að verða hagkvæmara að vinna aflann, það átti að auka útflutningsverðmæti aflans og mikil hagkvæmni átti að nást við vinnslu hans.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.