28.7.2007 | 23:35
Ég var klukkaður.....
.... af bloggvini mínum Ólafi Ragnarssyni, en áður hafði Anna Kristjánsdóttir klukkað mig ég verð að játa að ég var nýr á blogginu þá og hafði ekki nokkra glóru um hvað þetta þýddi, en nú geri ég tilraun til þess að bæta fyrir það sem ég gerði ekki þá. Ekki man ég eftir neinum sérstökum syndum til að játa upp á mig svo ég segi eitthvað frá mér:
- Ég er fæddur í Hafnarfirði 30.05.1959 á Sólvangi.
- Var í sveit á sumrin í Melkoti í Stafholtstungum í Borgarfirði 1967-1973
- Flutti til Þórshafnar á Langanesi 1961með foreldrum mínum. Móðir mín var ættuð þaðan.
- Byrjaði á sjó sumarið eftir að ég var fermdur þá á handfærum á trillu frá Þórshöfn. Það er skemmtilegasti veiðiskapur sem ég hef verið á.
- Ég fór í mína fyrstu siglingu árið 1977. Báturinn sem ég var á þá hét Þórkatla ll frá Grindavík. Við vorum 4 strákar á sama aldri og þótt ekki væri túrinn neitt sérstakur né metsala var tíminn í Cux meiriháttar og gleymist ekki svo glatt. Í Cux var ýmislegt gert sem verður ekki rifjað upp hér enda er það allt fyrnt. Flutti aftur til Hafnarfjarðar fyrir jól 1977 og hef að mestu búið þar síðan.
- Ég fór í stýrimannaskólann og útskrifaðist með fiskimanninn 1981.
- Ég kvæntist um áramótin 1983-1984 og eignaðist tvo syni annar er fæddur 1984 og hinn 1991, skildi síðan 1998. Konan vildi fá mig í land 1986 annars hótaði hún því að fara, naga mig ennþá svolítið í handarbökin yfir að hafa ekki látið reyna á þessar hótanir.
- Fór í Tækniskóla Íslands haustið 1986 og útskrifaðist sem Iðnrekstrarfræðingur af markaðssviði 1988
- Fór til Kristiansand í Noregi 1989 og útskrifaðist sem rekstrarfræðingur með markaðsfræði sem sérsvið 1991.
- Er haldinn veiðidellu á nokkuð háu stigi (skilst að hún sé ólæknandi). Systir mín, bara ein þeirra, heldur því fram að ég sé með fimmaurabrandara á heilanum (miðað við hvernig gengi krónunnar hefur þróast síðan hún sagði þetta er gengið á þeim ein króna og 27 aurar) og það verði örugglega fimmaurabrandari á legsteininum mínum þegar þar að kemur.
.....Ég gæti haldið áfram að telja upp eitthvað sem er liðið en ég nenni því ekki svo skilst mér að það eigi ekki að vera með einhverja langloku svo ég læt þetta bara duga um mig.
En nú vandast málið ég verð að finna einhverja átta til þess að klukka. Það verður höfuðverkur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.