9.1.2008 | 08:01
Er grundvallarbreytinga þörf á stjórnarskránni?
Allt frá okkar fyrstu árum í skóla hefur okkur verið sagt að hin svokallaða þrískipting ríkisvaldsins sé grundvöllurinn að stjórnskipun lýðveldisins Íslands.Eins og allir vita skiptist valdið í: LÖGGJAFARVALD, FRAMKVÆMDAVALD og DÓMSVALD.En eftir að stöðuveitingar ráðherra komust í hámæli, þá fór ég nú að skoða þessa þrískiptingu ríkisvaldsins betur og miðað við þá skoðun þá komst ég að því að skilin þarna á milli eru orðin afskaplega óskýr og sum staðar eru þau bara alveg horfin, hafi þau einhvern tíma verið til staðar. LÖGGJAFARVALD er samkvæmt stjórnarskránni í höndum Alþingis og forseta. Alþingismenn og konur fá umboð sitt frá þjóðinni, til fjögurra ára í senn, þeirra hlutverk er að setja lög sem þjóðin á að fara eftir og forseti veitir þessum lögum samþykki sitt. FRAMKVÆMDAVALD er ráðherra viðkomandi málaflokks og staðfestir forsetinn skipan viðkomandi ráðherra. Viðkomandi ráðherra á að sjá um framkvæmd þeirra laga sem Alþingi setur (Löggjafarvaldið). DÓMSVALD er í höndum dómara. Þannig er þrískiptingu ríkisvaldsins háttað þessum ÞREMUR þáttum á að halda algjörlega aðskildum til að tryggja sem best lýðræði og réttláta meðferð þegna landsins gegn hinu opinbera. En eitthvað virðist þetta hafa skolast til á undanförnum árum og jafnvel áratugum og hægt er með nokkuð góðri samvisku að fullyrða það að þrískipting ríkisvaldsins hafi aldrei að fullu verið til framkvæmdar hér á landi. Þessa fullyrðingu verður að skoða nánar og mun ég gera tilraun til þess hér á eftir.Við skulum byrja á því að skoða LÖGGJAFARVALDIÐ: Á Alþingi sitja 63 fulltrúar kjörnir af þjóðinni, það er óumdeilt, en af þessum 63 þingmönnum eru 12 ráðherrar. Þarna er strax komin skörun. Það er svo tilhögunin á Alþingi, að svokölluð ráðherrafrumvörp njóta forgangs í störfum þingsins, en þetta þýðir að þau frumvörp sem eru borin upp af ráðherra hafa forgang framyfir svokölluð þingmannafrumvörp. Ég tel að þarna sé um að ræða brot á stjórnarskránni. Samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins eiga ráðherrar ekki að hafa atkvæðisrétt á Alþingi og spurning hvort þeir eigi yfirhöfuð nokkuð að eiga sæti þar. Það er spurning hvort störf Alþingis yrðu ekki bara skilvirkari ef ráðherrar myndu bara mæta einu sinni í viku eða sjaldnar í fyrirspurnartíma niður á þing? Það er erfitt að skrifa nokkuð sérstaklega um FRAMKVÆMDAVALDIÐ vegna þess að þessi grein fjallar um það hvernig það hefur smám saman verið að taka yfir LÖGGJAFARVALDIÐ og DÓMSVALDIÐ. Það verður ekki um það deilt að FRAMKVÆMDAVALDIÐ er alltaf að verða fyrirferðarmeira í stjórnsýslu okkar Íslendinga. Þá er eftir að fara yfir DÓMSVALDIÐ. Ekki hefur það orðið útundan í þessari þróun. DÓMSVALDIÐ á samkvæmt stjórnarskránni að standa alveg sjálfstætt. En er það alveg sjálfstætt? Ég verð að viðurkenna vankunnáttu mína þar en ég veit ekki hvenær ráðherra byrjaði að skipa dómara, en í stjórnarskránni stendur í 59 grein Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum (Tilvitnun líkur, leturbreytingar eru mínar), þá er það skilningur minn, samkvæmt þessu,að ráðherra eigi EKKI að skipa dómara og er þá ekki hægt með góðu móti hægt að segja að stjórnarskráin hafi verið brotin í mörg ár eða jafnvel áratugi? Það er öruggleg einhver ástæða fyrir því að það er verið að tala um RÁÐHERRARÆÐI hér á landi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er algjörlega á sama máli og hef rætt þetta mál sjálfur:
http://upprettiapinn.blog.is/blog/upprettiapinn/entry/256400
http://upprettiapinn.blog.is/blog/upprettiapinn/entry/343801
Því miður held ég að við séum orðin það vön þessu ástandi að við höldum að þetta sé eðlilegt.
Upprétti Apinn, 9.1.2008 kl. 15:46
Ég er fjarri því að hallast á þá skoðun, Jóhann, að þetta ákvæði: "Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum" beri að skilja svo, að ráðherra megi ekki skipa dómara. Hafi það verið skilið þannig í byrjun, hefðu flokkarnir naumast samþykkt það! Eins hefðu fljótt komið fram ábendingar um, að slíkt skipunarvald ráðherra væri brot á stjórnarskránni, ef menn hefðu talið svo vera, en ég minnist þess ekki.
En það eru lagaákvæði, sem gilda um slíka skipun, og í greinargerð dómsnefndarinnar er vikið að þeim og lögð áherzla á málefnalega stöðuveitingu, sem (með mínu orðalagi) snúi ekki beinlínis á haus áliti dómsnefndarinnar. Ég vísa á þá greinargerð á þessari (nýju) vefsíðu minni um málið, þar sem einnig eru umræður út frá því, en ég er reyndar afar eindreginn í gagnrýni minni á þessa stöðuveitingu eins og þú, Jóhann. – Með góðri kveðju,
Jón Valur Jensson, 9.1.2008 kl. 20:48
Ekki get ég ætlast til þess að allir túlki stjórnarskrána eins og ég, en það sem ég er aðallega að fara með þessari grein minni er að það virðist sem "framkvæmdavaldið sé alltaf að verð fyrirferðarmeira eftir því sem líður á. Ef maður skoðar stjórnarskrána þá er hvergi í henni að finna heimild til ráðherra til að skipa dómara og reyndar er hvergi ákvæði um það hvernig sú skipun eigi að fara fram - Því er ekki óeðlilegt að gefa sér það að ráðherra hafi "tekið" sér það vald (hvenær það var gert er svo önnur saga) en það er í andstöðu við "þrískiptingu ríkisvaldsins".
Sigurður Kári var mjög uppfullur af því að ráðherra gæti notað álit umræddrar nefndar sem ráðgefandi en honum bæri engin skylda til þess að fara eftir henni, en hann talaði ekki um hvaðan ráðherra hefur vald sitt.
Jóhann Elíasson, 9.1.2008 kl. 21:34
Já, ég skil vel áherzlu þína. Það er reyndar margt í þessari stjórnarskrá, sem er ekki góður leiðarvísir um stjórnkerfið eins og það er í reynd, og á það t.d. bæði við um ráðherra og forsetann. En Sigurður Kári eins og fleiri Sjálfstæðismenn hafa farið út á vafasamar brautir í þessu máli, í þeim einum tilgangi, sýnist mér, að réttlæta allt sem Flokkurinn gerir. Þeir stækka ekki á því blessaðir.
Jón Valur Jensson, 10.1.2008 kl. 00:13
Góður pistill Jóhann og mjög þarfur.
Þessi hugleiðing verður æ áleitnari eftir því sem árin líða og ég álít að vald ráðherra sé fullmikið hér á landi til dæmis við setningu reglugerða sem aldrei koma til álits þings. Að vissu leyti má sama segja um stöðuveitingar sem ég sjálf sé ekki neitt athugavert að kæmu til lokaákvörðunar á Alþingi eftir ráðherraskipun.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 10.1.2008 kl. 01:13
Já Jón Valur, það eru ansi mörg ákvæðin í stjórnarskránni sem er "loðin" svo ekki sé nú meira sagt og svo við tölum nú um dómsmálin þá eru, að því að mig minnir, aðeins 5 greinar sem fjalla um þau. Varðandi Sigurð Kára, verð ég að segja að miðað við mann með lögfræðimenntun og áður en hann fór á Alþingi var hann starfandi lögfræðingur, þá hefur málflutningur hans aldrei, að mínu mati, tekið mið af því og aðeins einkennst af þröngum flokkspólitískum hagsmunum.
Guðrún María, ég tek alveg undir með þér um það að vald ráðherra er orðið "hættulega" mikið og ég fæ ekki alveg séð hvaðan ráðherrar sækja þessi völd sín þess vegna tel ég að endurskoða þurfi stjórnarskrána og þá sérstaklega samskipti ráðherra og Alþingis.
Kv. Jóhann
Jóhann Elíasson, 10.1.2008 kl. 09:02
Takk fyrir þennan pistil Jóhann. Ég hef mikið velt fyrir mér þrískiptingu valdsins. Það merkilega við stöðuna hjá okkur virðist það að þeir einstaklingaar sem taka sæti á Alþingi virðast ekki hafa neinn áhugaa fyrir að skilja þessa þrískiptingu. Ég hef um margra ára skeið rætt etta við mikinn fjölda þingmanna, ýmissa ráðamenn og lögfræðinga en enginn hefur sýnt þessum málum áhuga. Þegar ég fór að hugleiða þessi mál nánar, sá ég að það sem kallað er "ráðherraræði" hefur jafnt og þétt náð að herða tök sín á lýðræðinu með því að troða stjórnun sinni inn á vinnu Alþingis, skipan dómara og annarra embættismanna auk þess að segja fyrir um starfshætti dómstóla með því að leggja fyrir lagafrumvörp um stafshætti dómstóla. Þetta hefur skilað sér þannig að allir dómarar eru meðvitaðir um að séu þeir ekki vilhallir ríkisvaldinu geti þeir átt á hættu að vera litnir hornauga.
Það eru dómstólalög sem kveða á um það hver skipar dómara. Þar segir í 12. gr. að það sé dómsmálaráðherra sem skipi héraðsdómara, en í 4. gr. segir að Forseti skipi Hæstarétardómara samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra. Þessu fyrirkomulagi þarf snarlega að breyta. Það hefur reynsla undanfarinna ára sýnt okkur.
Guðbjörn Jónsson, 10.1.2008 kl. 16:44
Þakka þér kærlega fyrir þitt innlegg í umræðuna,Guðbjörn Jónsson og þá sérstaklega fyrir að fræða mig um ráðningaferil dómara, en ég verð að viðurkenna að þetta vissi ég ekki um. Atburðir síðustu daga virðast ætla að koma einhverri hreyfingu á þessi mál en það hefði bara mátt gerast fyrr.
Jóhann Elíasson, 10.1.2008 kl. 17:26
Ástæða er til að þakka ykkur fyrir þessa umræðu. það er nauðsynlegt að fjalla um svo mikilvæg mál sem þessi án þess að nota upphrópanir og mjög gildishlaðin orð.
Mér hefur alltaf gengið illa að skilja þegar bráðgreint og jafnvel gáfað fólk segir sig úr lögum við eigin dómgreind og gerir sig að flónum til að verja skelfilegar og ofbeldisfullar stjórnsýsluskyssur vegna pólitísks átrúnaðar.
Árni Gunnarsson, 12.1.2008 kl. 00:35
Eftir að lesa greinar eftir ykkur og athugasemdir þá er eins og ég finni til vonar.
Er þetta satt - að það er samband á milli dómara og háskóla á þennan hátt sem þú segir Árni. Svei mér þá - detti af mér allar dauðir
Landið er fyrirmyndar maffíaþjóðfélag, hvað segja þeir eiginlega á Sícilíu um þessa hörðu samkeppni?
Er ekki hægt að gefa námskeið í hvernig hægt er að brjóta á stjórnarskránni, góða reynslu virðist vera hægt að sækja hingað.
ee (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 11:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.