15.5.2008 | 07:51
Það er SKYLDA þingmanna að SJÁ til þess að lög sem eru sett standist stjórnarskrá landsins!
En þessa SKYLDUsína geta kjörnir fulltrúar á alþingi Íslendinga ekki einu sinni uppfyllt. Ekki er hægt að bera því við að launakjörin séu svo slæm eða eftirlaunin svo léleg, þar af leiðandi kasti þingmenn til höndunum við vinnu sína, hver skyldi ástæðan vera? Fyrir nokkru síðan setti ég hugleiðingar á bloggið varðandi stjórnarskrána og þann "tendens" að hið svokallaða FRAMKVÆMDAVALD væri smám saman og í rólegheitum að taka til sín allt vald í þjóðfélaginu, þetta staðfesti svo Valgerður Bjarnadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar fyrir nokkrum dögum í Kastljósþætti, en þar var hún ásamt Birgi Ármannssyni að ræða frumvarp hennar um breytingar á eftirlaunafrumvarpinu fræga, sem allsherjarnefnd (nefndin sem Birgir Ármannson veitir forstöðu) hefur "svæft" í meðförum sínum. Ég birti hér með áður ræddar hugleiðingar mínar:
Er grundvallarbreytinga þörf á stjórnarskránni? Allt frá okkar fyrstu árum í skóla hefur okkur verið sagt að hin svokallaða þrískipting ríkisvaldsins sé grundvöllurinn að stjórnskipun lýðveldisins Íslands.Eins og allir vita skiptist valdið í: LÖGGJAFARVALD, FRAMKVÆMDAVALD og DÓMSVALD.En eftir að stöðuveitingar ráðherra komust í hámæli, þá fór ég nú að skoða þessa þrískiptingu ríkisvaldsins betur og miðað við þá skoðun þá komst ég að því að skilin þarna á milli eru orðin afskaplega óskýr og sum staðar eru þau bara alveg horfin, hafi þau einhvern tíma verið til staðar. LÖGGJAFARVALD er samkvæmt stjórnarskránni í höndum Alþingis og forseta. Alþingismenn og konur fá umboð sitt frá þjóðinni, til fjögurra ára í senn, þeirra hlutverk er að setja lög sem þjóðin á að fara eftir og forseti veitir þessum lögum samþykki sitt. FRAMKVÆMDAVALD er ráðherra viðkomandi málaflokks og staðfestir forsetinn skipan viðkomandi ráðherra. Viðkomandi ráðherra á að sjá um framkvæmd þeirra laga sem Alþingi setur (Löggjafarvaldið). DÓMSVALD er í höndum dómara. Þannig er þrískiptingu ríkisvaldsins háttað þessum ÞREMUR þáttum á að halda algjörlega aðskildum til að tryggja sem best lýðræði og réttláta meðferð þegna landsins gegn hinu opinbera. En eitthvað virðist þetta hafa skolast til á undanförnum árum og jafnvel áratugum og hægt er með nokkuð góðri samvisku að fullyrða það að þrískipting ríkisvaldsins hafi aldrei að fullu verið til framkvæmdar hér á landi. Þessa fullyrðingu verður að skoða nánar og mun ég gera tilraun til þess hér á eftir.Við skulum byrja á því að skoða LÖGGJAFARVALDIÐ: Á Alþingi sitja 63 fulltrúar kjörnir af þjóðinni, það er óumdeilt, en af þessum 63 þingmönnum eru 12 ráðherrar. Þarna er strax komin skörun. Það er svo tilhögunin á Alþingi, að svokölluð ráðherrafrumvörp njóta forgangs í störfum þingsins, en þetta þýðir að þau frumvörp sem eru borin upp af ráðherra hafa forgang framyfir svokölluð þingmannafrumvörp. Ég tel að þarna sé um að ræða brot á stjórnarskránni. Samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins eiga ráðherrar ekki að hafa atkvæðisrétt á Alþingi og spurning hvort þeir eigi yfirhöfuð nokkuð að eiga sæti þar. Það er spurning hvort störf Alþingis yrðu ekki bara skilvirkari ef ráðherrar myndu bara mæta einu sinni í viku eða sjaldnar í fyrirspurnartíma niður á þing? Það er erfitt að skrifa nokkuð sérstaklega um FRAMKVÆMDAVALDIÐ vegna þess að þessi grein fjallar um það hvernig það hefur smám saman verið að taka yfir LÖGGJAFARVALDIÐ og DÓMSVALDIÐ. Það verður ekki um það deilt að FRAMKVÆMDAVALDIÐ er alltaf að verða fyrirferðarmeira í stjórnsýslu okkar Íslendinga. Þá er eftir að fara yfir DÓMSVALDIÐ. Ekki hefur það orðið útundan í þessari þróun. DÓMSVALDIÐ á samkvæmt stjórnarskránni að standa alveg sjálfstætt. En er það alveg sjálfstætt? Ég verð að viðurkenna vankunnáttu mína þar en ég veit ekki hvenær ráðherra byrjaði að skipa dómara, en í stjórnarskránni stendur í 59 grein Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum (Tilvitnun líkur, leturbreytingar eru mínar), þá er það skilningur minn, samkvæmt þessu,að ráðherra eigi EKKI að skipa dómara og er þá ekki hægt með góðu móti hægt að segja að stjórnarskráin hafi verið brotin í mörg ár eða jafnvel áratugi? Það er öruggleg einhver ástæða fyrir því að það er verið að tala um RÁÐHERRARÆÐI hér á landi.
Flóknara en ég gerði ráð fyrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir Hanna Birna
Jóhann Elíasson, 15.5.2008 kl. 14:53
þetta er sannleikur og kvitt og kveðja /Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 15.5.2008 kl. 21:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.