10.8.2007 | 07:15
Þetta FITTAR ekki alveg.
Nú hefur verið talað um það að þessi gjöld bankanna séu alltof há og hugsanlega eigi almenningur að fá greiddar bætur vegna þess að FIT-kostnaðurinn sem hefur verið greiddur í gegnum árin, hafi verið of hár, en ekki man ég til þess að fjallað hafi verið um brot bankanna gagnvart hinu opinbera. Bankarnir vitna í tékkalög frá 1933 (Lög 94/1933) ég hef lesið þessi lög fram og til baka og ég get ekki með nokkru móti fundið neina heimild til gjaldtöku vegna innistæðulausra úttekta, hins vegar segir í 73 grein þessara laga: Refsa skal með sektum eða allt að 3 mánaða fangelsi, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum, þeim:
a. sem gefur út tékka án þess að innstæða sé fullnægjandi á reikningi hans hjá greiðslubankanum, sbr. 4. gr., eða
b. sem án sérstakrar ástæðu afturkallar tékka eða ráðstafar innstæðu og hindrar á þann hátt, að tékki, sem hann hefur þegar gefið út, greiðist við sýningu innan sýningarfrestsins, sbr. 29. gr. Samkvæmt þessari grein sækja bankarnir heimild sína, til þess að láta viðskiptavini sína greiða FIT-kostnað, að sögn Guðjóns Rúnarssonar framkvæmdastjóra FFS. En sé þessi grein laganna skoðuð, þá er hún eingöngu að gefa DÓMSTÓLUM leiðbeiningar um þann refsiramma sem er við þessum brotum. Bankarnir eru þarna,að mínu mati, að taka sér refsiheimild og ég veit ekki betur en að það varði við lög. Þá hafa þessar sektir ekki runnið til ríkissjóðs og að því er ég best veit þá liggja við því þung viðurlög að skila ekki vörslusköttum til ríkisins, en það virðist ekki vera sama hver á í hlut. Ef einhver greiðir ekki sektirnar sínar er hann umsvifalaust fangelsaður. Hvernig stendur á því að bankarnir komast upp með þetta áratugum saman? Ég þori að fullyrða það að það sem bankarnir hafa ekki greitt til ríkisins skiptir tugum milljóna króna, einhvern tíma hefði verið gengið eftir slíkum upphæðum af mikilli hörku.
Er ekki fullt tilefni til að fari fram rannsókn á þessu FIT-máli og ef það kemur eitthvað í ljós þá verði gripið til aðgerða?
Ég las það í Blaðinu í gær að Viðskiptaráðherra, Björgvin G Sigurðsson, ætlar að endurskoða þessi lög og gera á þeim endurbætur. Hann kemur fyrir sem röggsamur, duglegur og mjög vel gefinn ungur maður og treysti ég því að hann taki vel á þessu máli.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Eins og ég þekki til Björgvins þá virkar hann svona eins og þú segir hann koma fyrir og ég hef trú á því að við getum treyst því, að hann rífi í rassgatið á þessu rugli.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 10.8.2007 kl. 12:31
Auðvitað tekur ráðherrann á þessu. Enda á hann núna engra annara kosta völ, eftir að hann tjáði sig um málið á þá lund sem hann gerði.
Hvenær mun einhver ábyrgur stjórnmálamaður þora að stíga fram og lýsa yfir að einkavinavæðing bankanna hafi mistekist?
Árni Gunnarsson, 10.8.2007 kl. 13:44
Það verður fróðlegt að fylgjast með.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 11.8.2007 kl. 00:22
Og allir taka þeir bankarnir sama gjald og eru með sömu reglur. Hvað með samkeppni?
Halla Rut , 11.8.2007 kl. 18:31
Samkeppni á bankamarkaði er ekki til staðar, það hefur Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri FFS, staðfest.
Jóhann Elíasson, 12.8.2007 kl. 11:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.