Þeir gera það ekki endasleppt íslenskusnillingarnir á mbl.is

Hvað þýðir eiginlega að vera FRÁSTUR?  Ég er bara alveg að tapa mér yfir öllum þessum nýju orðum sem tröllríða fréttunum á mbl.is þess dagana.
mbl.is Hamilton frástur á lokadegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sæll Jóhann.

Vonandi tapar þú þér ekki og ekki vil ég verða valdur að því! Og það er ekki nýtt að vera frástur eða fráastur, hvort tveggja eru góð og gild orð yfir flýti einhvers. 

Fráastur er ef til vill algengara. Í Króka-Refs sögu segir á einum stað: „Þess er við getið að sá maður var þar í héruðum er Barði hét, manna minnstur. Hann var kallaður Barði hinn litli. Allra manna var hann frástur og ekki hljóp hann minna en hinn besti hestur."

Það er gott að hafa bókmenntir eins og Íslendingasögurnar sér til trausts og halds þegar að manni er sótt fyrir að reyna vera ekki í flatneskju og rækta máltilfinningu sína og þekkingu! 

Ég þekki líka dæmi úr skáldskap Stefáns G. og þau eru ugglaust enn fleiri, en að því mætti komast með því að fletta upp í orðasöfnum.

Ég hef tekið eftir tíðum athugasemdum þínum við málfar á mbl.is. Þær hafa verið réttmætar þar til nú! Og eiga örugglega eftir að verða fleiri og þá líka sanngjarnar.

Hætturnar á að röng notkun málsins birtist á netinu eru meiri en í prentmiðlum. Yfirleitt er efni á netinu ekki lesið yfir af prófarkalesurum eins og í t.d. blöðum.  Og afköstin á netmiðli eins og mbl.is eru mun hraðari og meiri en á t.d. blaðinu sjálfu.

Netið gefur hins vegar möguleika á að leiðrétta ambögur og dellur. Athugasemdir notenda leiða líka oft til þess. Því eiga þú og aðrir dyggir notendur vefjarins pínulítinn hlut í honum, ef svo mætti segja.

Það er hins vegar ástæðulaust til að reiða mjög hátt til höggs og ég tek eftir því að oft eru þeir stóryrðastir sem hafa síst efni á því. Í aðal atriðum held ég nefnilega að  málfar á mbl.is sé í góðu lagi þótt á því geti verið afleitar undantekningar, eins og þú þekkir.

Nú er ég ekki að snobba neitt, enda þoli ég ekki fólk sem rignir upp í nefið á. En ég hef gaman af að "ríkja" texta og fyrirsagnir þegar svo ber undir og ef sá gállinn er á mér. Og smíða nýyrði, tel ég mig t.d. eiga þau mörg í formúlumálinu eftir regluleg skrif um hana í á annan áratug. Þetta er arfurinn af því að hafa alist upp á Raufarhöfn.

Bestu kveðjur

Ágúst

Ágúst Ásgeirsson, 27.6.2008 kl. 06:49

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég er á sama máli, en undanfarið hefur borið nokkuð á "skrítnum" orðum og orðatiltækjum, sem falla illa að þeirri málvitund sem margir hafa.  Ekki er ég nú mikill íslenskumaður og ég verð að viðurkenna að ég þekkti ekki þessa notkun orðsins og þykir það leitt að hafa sett inn athugasemd að óathuguðu máli og gert þeim manni, sem skrifaði fréttina rangt til.  Þakka þér fyrir ábendinguna.

Jóhann Elíasson, 27.6.2008 kl. 11:51

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Hafðu engar áhyggjur Jóhann, ég tek athugasemdum aldrei illa. Þvert á móti tek ég þeim fagnandi. Þær vekja mann alltaf til umhugsunar um málfar og texta. Hvort sem menn eru búnir að vera stutt í faginu eða lengi getur mönnum orðið á í messunni. Er maður því bara þakklátur fyrir ábendingar og athugasemdir - þær gefa manni kost á að leiðrétta texta. Þegar ég tel mig vissan í minni sök reynir maður að rökstyðja það, eins og í þessu tilviki. Finnist þér eitthvað einkennilegt á formúluvefnum máttu alveg láta mig heyra það!

Ágúst Ásgeirsson, 27.6.2008 kl. 16:24

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Eins og ég skrifaði áðan, þá er ég enginn íslenskusnillingur og mér finnst það til lítillar fyrirmyndar hjá mér að skrifa athugasemdir, sem ekki eiga rétt á sér, þinn rökstuðningur í þessu máli var mjög góður ég fór þarna með hluti sem ekki voru réttir og áttu ekki rétt á sér.  Ég fylgist vel með formúluvefnum og þetta er það eina sem mér hefur fundist athugavert þar og svo reyndist það vera vitleysa hjá mér.  Ég vona að ég fái að njóta formúluskrifa þinna lengi ennþá og þakka þér góð og fræðandi skrif.

Jóhann Elíasson, 27.6.2008 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband