Færsluflokkur: Bloggar
23.5.2007 | 13:11
Eru engar forsendur fyrir hvalveiðum?
Enn einu sinni hljómuðu í eyrum mér órökstuddar og hæpnar fullyrðingar um hvalveiðimál úr munni Árna Finnssonar. Þessi maður virðist láta sér í léttu rúmi liggja þótt sannleikurinn í fullyrðingum hans sé víðs fjarri. Enn japlar hann á þeirri gömlu tuggu að markaðir séu hvergi til fyrir hvalkjöt erlendis og engir sjáanlegir markaðir fyrir hvalkjöt innanlands.
Eins og Árni veit, og margsinnis hefur verið bent á, hafa hvalveiðar í atvinnuskini verið bannaðar í 20 ár. Þá er kannski vert að rifja það upp að ekki voru til markaðir fyrir hvalaskoðanir, þegar þær hófust. Af því leiðir að sjálfsögðu að fullkomlega er eðlilegt að markaðir séu ekki fyrir hendi meðan svo háttar til, - en það vita þeir sem vita vilja að eftirspurnin er fyrir hendi, enda hafa rannsóknir leitt það í ljós að hvalkjötið inniheldur mikið af Omega 3 fitusýrum og öðrum hollum og góðum efnum. Það er því augljóst að markaðir fyrir hvalaafurðir verða ekki vandamál þegar að því kemur að veiðar verða leyfðar á ný í atvinnuskini. Fullyrðingar Árna og hans nóta um að markaður sé enginn fyrir hvalkjöt innanlands eru nánast hlægilegar og því læt ég mér þær í léttu rúmi liggja, enda um fjarstæðu eina að ræða sem ekki er svara verð.
Árni segir að birgðir hvalkjöts safnist upp í landinu af því að enginn vilji kaupa. Þær eru þó ekki meiri en svo, - þessar miklu birgðir, - að erfitt er orðið að fá kjötið keypt eða nánast ekki hægt af því að það virðist uppurið. Um síðustu helgi ætlaði ég, til dæmis, að kaupa hrefnukjöt á grillið, enda eitthvert besta kjöt til grillunar sem völ á. Hrefnukjöt í þeirri verslun sem ég skipti við er ekki lengur fáanlegt og heldur ekki í öðrum verslunum sem ég hafði spurnir af. Þetta er meira en lítið undarlegt ef miklar birgðir eru til í landinu af jafn hollri og góðri vöru!
Skyldi það geta verið að talið um hrefnukjötsbirgðirnar séu aðeins einn liður í ómerkilegum áróðri hvalaskoðunarmanna ? Ljótt er ef satt reyndist. Væri annars til of mikils mælst að Árni og félagar létu mig og aðra vita hvar allt þetta dýrindis hrefnukjöt er niður komið svo að mönnum takist að fá, þótt ekki væri nema í eitt skipti , ofurlítinn bita á grillið!
Árni virðist halda að vísindarannsóknir tengdar hvalveiðum stundi menn bara sér til gamans og niðurstöður rannsóknanna séu lítils eða einskis virði. Virðist eins og maðurinn sé í skógarferð - svo vitnað sé í fótboltann - því að ekki er annað að sjá en hann hafi enga hugmynd um hvað hann er að tala.
Árni virðist mest stjórnast af tilfinningum, óháður rökum og sannleika. Hins vegar verður að gera þær kröfur til manns sem er forsvarsmaður samtaka að hann fari með rétt mál og láti ekki tilfinningar eða skort á tilfinningum ráða orðum sínum og gjörðum.
Þeir sem um þessi mál hugsa sjá lítið vit í því að hinn gífurlegi fjöldi hvala sem orðinn er kringum Ísland fái að fjölga sér óhindrað og raska þannig jafnvægi náttúrunnar. Það hafa aldrei verið forsendur fyrir hvalveiðibanni við Ísland . Það vita allir, sem til þekkja, að á meðan Íslendingar fengu að stunda hvalveiðar í friði voru þær stundaðar í hófi og af mikilli ábyrgð. Nú virðist svo komið eftir 20 ára hlé að hvalveiðar eru orðnar þjóðarnauðsyn til að koma í veg fyrir stórfellda röskun á lífríki sjávarins.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.5.2007 | 13:47
ESB-umræða
Ég var að lesa blogg Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Nú þekki ég hvorki haus né sporð á þessari góðu konu (Önnu Ólafsdóttur Björnsson) en skrif hennar fannst mér einkennast af afturhaldssemi og gömlum "Davíðskreddum", sem sagt ég hafði það á tilfinningunni að hún væri mikil Sjálfstæðismanneskja og "Davíðssinni" og "klukkan"hjá henni hefði bara stoppað þegar Davíð Oddson var forsætisráðherra.
Það sem ég er sammála í stefnu Samfylkingarinnar er stefna hennar í Evrópumálunum, í það minnsta þarf að ræða þessi mál því það er alveg ljóst að EES-samningurinn er engan veginn fullnægjandi og það er bara tímaspursmál hvenær ESB-menn láta þennan samning lönd og leið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2007 | 12:48
Afleiðing kvótakerfisins?
Erum við að sjá hversu gott fyrir byggðir landsins kvótakerfið er, þegar staðan á Flateyri er skoðuð?
Framkvæmdastjóri Kambs á Flateyri talar þar um hátt gengi, hátt verð á leigukvóta og lágt afurðaverð. Svolítið finnst mér nú ódýrt að tala um hátt gengi en það eru útgerðarmenn sem hafa lagst gegn því að aðild að ESB verði skoðuð og þar með að evran verði tekin upp, en það myndi koma í veg fyrir gengissveiflur eins og við þekkjum þær í dag og tryggja stöðugleika í gengismálum. þau fáránlegu lög sem eru í gildi hér á landi, sem banna erlenda eignaraðild að sjávarútvegsfyrirtækjum, þessi lög eru svo algjörlega út úr kortinu og vinna á móti atvinnugreininni, t.d vantar fjármagn inn í greinina en það vantar ekki lánsfjármagn (sem er víst ekki á lausu eins og staðan er) og eins og allir vita þá er lánsfjármagn á Íslandi dýrt og ekki á færi fyrirtækis sem berst í bökkum að nýta sér það. Verð á leigukvóta er vissulega hátt og þar sem´mjög lítið framboð er af kvóta til leigu er verðið á honum mjög hátt (þar ráða markaðsöflin; framboð og eftirspurn) og þarna erum við komin að kjarna málsins það þarf að gera breytingar á kvótakerfinu og það strax. Afurðaverðið hangir að miklu leyti saman við gengið og það er lítið hægt að gera í því nema að breytingar verði gerðar á efnahagsstefnu landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2007 | 09:51
Fiskveiðistefnan
- Upphaflegt markmið kvótakerfisins var að sjálfsögðu að vernda fiskistofnana við landið og bæta sóknarstjórnunina.
- Kvótakerfið átti að vernda byggð í landinu, þannig að smærri byggðarlög yrðu ekki afskipt. Kvótakerfið átti með öðrum orðum að verða eitt verkfæra hinnar svokölluðu byggðastefnu.
- Kvótakerfið átti að auka mikið afrakstur fiskimiðanna, allur afli átti að koma að landi og menn áttu að auka sóknina í verðmætari og vannýttar fisktegundir. Með því að stýra sókninni átti að verða hagkvæmara að vinna aflann, það átti að verða hagkvæmara að vinna aflann, það átti að auka útflutningsverðmæti aflans og mikil hagkvæmni átti að nást við vinnslu hans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2007 | 20:15
Völd, eru þau málið?
Nú þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, er komin í stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn, fyrir hönd Samfylkingarinnar og hefur étið ofan í sig svo til öll stóru orðin í kosningabaráttunni, þá er eins gott fyrir hana að standa við helstu stefnumál Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni og þar var stærsta málið að eyða biðlistunum í heilbrigðiskerfinu. Eða skyldi það vera meira mál fyrir hana að komast í ríkisstjórn? Ekki kæmi það mér á óvart. Að mínum dómi gæti fátt orðið verra en að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði næsti utanríkisráðherra Íslands.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki frekar en áður rökstuddi hann þessa fullyrðingu sína á nokkurn hátt, heldur sló hann þessum rakalausa þvættingi fram, hann virðist halda að við sem hlustum látum bara "mata" okkur á hvaða þvælu sem er og "gleypum" við öllu sem sagt er án umhugsunar.
Hann virðist hafa gleymt skýrslu ferðamálaráðs, var niðurstaða hennar sú að hvalveiðar hefðu engin áhrif á ferðaþjónustuna. Honum til upplýsingar eru þeir þættir sem helst hafa áhrif á ferðaþjónustuna gengismál, veðurfar, markaðssetning á vörum og þjónustu, almennt verðlag, afþreyingarmöguleikar og ferðamöguleikar til og frá landinu.
Þá er það skondinn hlutur, en hvalaskoðunarmenn hafa verið mikið í því að segja að ekki sé neinn markaður fyrir hrefnukjöt innanlands, en nú bregður svo við að ekki er hægt að anna eftirspurn eftir þessari vöru og ef svo heldur fram sem horfir eru allar líkur á að það þurfi að fjölga þeim dýrum sem má veiða. Almenningur er búinn að átta sig á því hversu gott hráefni er þarna um að ræða og einnig ódýrt. En það er ekki úr vegi að ræða þá gríðarlegu fjölgun hvala sem orðið hefur við strendur landsins þau ár sem hvalveiðar hafa verið bannaðar. Greinilegt er að náttúran ber ekki þessa gríðarlegu fjölgun og sést það best á því að æti er ekki til staðar fyrir allan þennan fjölda. Hrefnuveiðimenn hafa kvartað yfir því að hrefnan sé stygg og því erfitt að nálgast hana, sem komi til af því að hún sé í litlu æti og dýrin séu horuð og magainnihald þeirra dýra sem hafi veiðst sé lítið. Því er nauðsynlegt að auka við þann fjölda dýra sem leyfilegt er að veiða og stórauka svo kvótann á næsta ári. Ekki kæmi mér á óvart að hvalaskoðunarmenn vildu láta banna loðnuveiðar, síldveiðar og þorskveiðar til þess að nægt æti yrði fyrir hvalina, en þeir hugsa ekki fyrir því að við þurfum að lifa hér á þessu landi, ekki getum við lifað af hvalaskoðun því ekki er afkoman í greininni neitt til þess að hrópa húrra fyrir og ekki hef ég trú á að afkoman batni. Þessu til staðfestingar skulum við skoða tölur frá árinu 2004: Samkvæmt tölum frá Ferðamálaráði og frá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands voru tekjur af hvalaskoðun 1.900.000.000. Enginn ágreiningur er um þessa tölu (ekki svo mér sé kunnugt um) en hins vegar segja heimildir Ferðamálaráðs að farþegar í hvalaskoðunarferðum hafi verið 72.200 en Hvalaskoðunarsamtök Íslands segja fjölda farþega hafa verið rúmlega 81.000 (hvernig á þessum mismuni stendur veit ég ekki). Samkvæmt tölunum frá Ferðamálaráði hefur hver farþegi í hvalaskoðun skilið eftir tekjur til þjóðfélagsins sem nema 26.316 kr., en samkvæmt Hvalaskoðunarsamtökum Íslands hafa tekjurnar af hverjum farþega verið 23.457 kr. Til þess að taka af allan vafa þá er þarna um heildartekjur að ræða, þ.e.a.s eftir er að taka þarna af fargjald til hvalaskoðunarbátanna, sem var árið 2004 að meðaltali 3.700 kr. fyrir fullorðna og 1.600 kr. fyrir börn. Þá er að reikna út heildartekjur hvalaskoðunarfyrirtækjanna og verður byrjað á því að styðjast við fjölda farþega skv. Ferðamálaráði, einnig verð ég að gefa mér forsendur, en mér þykir ekki fjarri lagi að áætla að 60% farþega hafi greitt fullorðinsgjald og þá að 40% þeirra hafi greitt barnagjald.
Miðað við 72.200 farþega voru tekjurnar sem hér segir:
160.284.000 fyrir fullorðinsgjaldið
46.208.000 fyrir barnagjaldið
206.492.000 var þá heildarveltan skv. Ferðamálaráði.
En miðað við 81.000 farþega voru tekjurnar þessar:
179.820.000 fyrir fullorðinsgjaldið
51.840.000 fyrir barnagjaldið
231.660.000 var þá heildarveltan skv. Hvalaskoðunarsamtökum Íslands.
Svo getur fólk velt því fyrir sér hvort líklegt sé að þessar tekjur geti staðið undir öllum þeim kostnaði sem til féll, hvor talan sem tekin er gild. Í það minnsta þykir mér ekki fara mikið fyrir þessum "blómlega" atvinnuvegi , sem hvalaskoðunarmenn eru alltaf að tala um. Ef þessar tölur eru skoðaðar læðist að manni að hvalaskoðunarmenn ættu að snúa sér að einhverju öðru sem gæti kannski skilað einhverjum arði, kannski ættu þeir að leggja stund á hvalveiðar, þegar þær verða leyfðar fyrir alvöru?
Höfundur er fyrrverandi stýrimaður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
En fyrst skulum við fara aftur til þess tíma, er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sóttist eftir því að verða formaður Samfylkingarinnar (illu heilli fyrir Samfylkinguna). Upphaflega voru rök stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar þau, að fyrst og fremst væri hún kona og bentu á árangur hennar þegar hún var borgarstjóri og því var haldið fram að hún væri manna líklegust til þess að bæta við fylgi Samfylkingarinnar og með framgöngu sinni og "persónutöfrum" myndi hún gera Samfylkinguna að "trúverðugu" stjórnmálaafli (þurfti þess?). En þetta hefur ekki gengið eftir, þvert á móti, fylgið við flokkinn dalar endalaust og hún sagði í ræðustól á Alþingi að Framsóknarflokkurinn væri með "pilsnerfylgi" og hefur væntanlega átt við að fylgi flokksins væri um 2,25% sem er áfengisstyrkleiki pilsners, en það sem hefur gerst síðan er að Framsóknarflokkurinn hefur aðeins verið að auka fylgi sitt en Samfylkingin, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, er sífellt að mælast með minna fylgi og er svo komið að hún er komin í "léttvínsfylgi" en það er huggun harmi gegn að léttvín hefur áfengisstyrkleika frá 13–14% í rétt um 20%. Þannig að það er hægt að vera nokkuð lengi í "Léttvínsfylgi" en á eftir því kemur svokallað "Bjórfylgi"en það getur verið frá 2,25% upp í 12%, þá kemur "pilsnerfylgið", en það er 2,25%, svo kemur "léttbjórsfylgið" en það er eins og allir að vita 0%.
Skyldi Samfylkingin, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar, verða komin í "bjórfylgi" eða alla leið niður í "léttbjórsfylgi" þegar kemur að kosningum í vor?
En hvað skyldi það vera sem veldur þessu fylgistapi Samfylkingarinnar? Ekki er hægt að benda á neina sérstaka ástæðu, nema formann flokksins Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og framgöngu hennar undanfarin misseri og skal nú bent á nokkur atriði:
Alltaf þegar hún fer í ræðustól á hinu háa Alþingi talar hún í nöldurtóni, hún er reið og menn taka ekki orðið mark á því sem hún segir, hún talar alltaf í sama reiðitóninum, væntanlega til þess að leggja aukna áherslu á það sem hún er að segja en þetta hefur þveröfug áhrif.
Allt sem ekki gengur upp er ríkisstjórninni og stefnu hennar að kenna.
Hún hefur sagt það að fólk treysti ekki þingmönnum Samfylkingarinnar til að fara með stjórn landsmálanna (þetta atriði að lýsa yfir vantrausti á þingflokk sinn er algjört einsdæmi, á sér ekki nokkra hliðstæðu)
Hún hefur margsinnis tekið upp mál sem aðrir flokkar eru með og hafa notið fylgis, tekið þau mál upp sem málefni Samfylkingarinnar og snúist í marga hringi eftir því hvaða mál eru líkleg til vinsælda. En það sem hún hefur ekki áttað sig á er að kjósendur sjá í gegnum þessi "loddarabrögð" hennar. Öfugt við Ingibjörgu Sólrúnu hefur Steingrímur J. Sigfússon verið með skýr stefnumál og staðið við þau. Kannski skýrir þessi punktur að mestu leyti fylgi vinstri grænna.
Hún hefur "fælt" í burtu marga af helstu þungavigtarmönnum og -konum Samfylkingarinnar og má þar nefna Margréti Frímannsdóttur, Jóhann Ársælsson, Bryndísi Hlöðversdóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur.
Um er að ræða manneskju, sem oft hefur verið staðin að því að umgangast sannleikann af "léttúð". þetta eru kjósendur búnir að sjá og því er trúverðugleiki hennar afskaplega lítill og ekki mikið á henni og hennar orðum að byggja.
Hún hefur ekki náð neinum "pólitískum" þroska. Þetta segi ég vegna þess að síðan 1983 að Kvennalistinn var stofnaður hefur hún verið föst í sömu málum og þá og má segja að smám saman hafi hún breytt Samfylkingunni í Kvennalista.
Stjórnunarstíll Ingibjargar Sólrúnar á ekkert skylt við lýðræði og sá sem er henni ekki sammála og lætur það í ljósi á ekki sjö dagana sæla og er þarna kannski komin skýringin á flótta þungavigtarmanna og -kvenna úr þingflokki Samfylkingarinnar.
Dæmi um mál sem hún áleit að myndi verða "vinsælt" er að þegar umræðan um að taka upp evruna kom upp þá fullyrti hún að krónan ætti sök á háu matvælaverði og væri "handónýt" og bæri því að taka upp evruna. En er það ekki staðreyndin að það er Ingibjörg Sólrún sem er handónýt og því beri að losa sig við hana?
Að mínum dómi er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ofmetnasti stjórnmálamaður landsins, hún gerði marga góða hluti sem borgarstjóri í Reykjavík en eftir að hún kom að landsmálunum má segja að henni hafa verið afskaplega mislagðar hendur, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið og framganga hennar hefur valdið mörgum vonbrigðum.
En það er nokkuð víst að margir Samfylkingarmenn og -konur horfa til þess tíma með söknuði, þegar Össur Skarphéðinsson var formaður Samfylkingarinnar, þá var stöðug aukning á fylginu, en eftir að Ingibjörg Sólrún varð formaður hefur fylgistapið verið stöðugt og sér ekki fyrir endann á því að öllu óbreyttu.
Það skal tekið fram að allt sem fram kemur í grein þessari eru persónulegar skoðanir undirritaðs
Höfundur er fyrrverandi stýrimaður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)