Eru engar forsendur fyrir hvalveiðum?

Enn einu sinni hljómuðu í eyrum mér órökstuddar og hæpnar fullyrðingar um hvalveiðimál úr munni Árna Finnssonar.  Þessi maður virðist láta sér í léttu rúmi liggja þótt sannleikurinn í fullyrðingum hans sé víðs fjarri.  Enn japlar hann á þeirri gömlu „tuggu“ að markaðir séu hvergi til fyrir hvalkjöt erlendis og engir sjáanlegir markaðir fyrir hvalkjöt innanlands.

Eins og Árni veit, og margsinnis hefur verið bent á, hafa hvalveiðar í atvinnuskini verið bannaðar í 20 ár. Þá er kannski vert að rifja það upp að ekki voru til markaðir fyrir hvalaskoðanir, þegar þær hófust.  Af því leiðir að sjálfsögðu að fullkomlega er eðlilegt að markaðir séu ekki fyrir hendi meðan svo háttar til, - en það vita þeir sem vita vilja að eftirspurnin er fyrir hendi, enda hafa rannsóknir leitt það í ljós að hvalkjötið inniheldur mikið af Omega 3 fitusýrum og öðrum hollum og góðum efnum.  Það er því augljóst að markaðir fyrir hvalaafurðir verða ekki vandamál þegar að því kemur að veiðar verða leyfðar á ný í atvinnuskini.  Fullyrðingar Árna og hans nóta um að markaður sé enginn fyrir hvalkjöt innanlands eru nánast hlægilegar og því læt ég mér þær í léttu rúmi liggja, enda um fjarstæðu eina að ræða sem ekki er svara verð.

Árni segir að birgðir hvalkjöts safnist upp í landinu af því að enginn vilji kaupa.  Þær eru þó ekki meiri en svo, - þessar miklu birgðir, - að erfitt er orðið að fá kjötið keypt eða nánast ekki hægt  af því að það virðist uppurið.  Um síðustu helgi ætlaði ég, til dæmis, að kaupa hrefnukjöt á grillið, enda eitthvert besta kjöt til grillunar sem völ á.  Hrefnukjöt í þeirri verslun sem ég skipti við er ekki lengur fáanlegt og heldur ekki í öðrum verslunum sem ég hafði spurnir af.  Þetta er meira en lítið undarlegt ef miklar birgðir eru til í landinu af jafn  hollri og góðri vöru!

Skyldi það geta verið að talið um hrefnukjötsbirgðirnar séu aðeins einn liður í ómerkilegum áróðri hvalaskoðunarmanna ?  Ljótt er ef satt reyndist.  Væri annars til of mikils mælst að Árni og félagar létu mig og aðra vita hvar allt þetta dýrindis hrefnukjöt er niður komið svo að mönnum takist  að fá, þótt ekki væri nema í eitt skipti , ofurlítinn bita á grillið!

Árni virðist halda að vísindarannsóknir tengdar hvalveiðum stundi menn bara sér til gamans og niðurstöður rannsóknanna séu lítils eða einskis virði. Virðist eins og maðurinn sé í skógarferð - svo vitnað sé í fótboltann - því að ekki er annað að sjá en hann hafi enga hugmynd um hvað hann er að tala.

Árni virðist mest stjórnast af tilfinningum, óháður rökum og sannleika. Hins vegar verður að gera þær kröfur til manns  sem er forsvarsmaður samtaka  að hann fari með rétt mál og láti ekki tilfinningar eða skort á tilfinningum ráða orðum sínum og gjörðum.

Þeir sem um þessi mál hugsa sjá lítið vit í því að hinn gífurlegi fjöldi hvala sem orðinn er kringum Ísland fái að fjölga sér óhindrað og raska þannig jafnvægi náttúrunnar.  Það hafa aldrei verið forsendur fyrir hvalveiðibanni við Ísland .  Það vita allir, sem til þekkja, að á meðan Íslendingar fengu að stunda hvalveiðar í friði voru þær stundaðar í hófi og af mikilli ábyrgð.  Nú virðist svo komið eftir 20 ára hlé að hvalveiðar eru orðnar þjóðarnauðsyn til að koma í veg fyrir stórfellda röskun á lífríki sjávarins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: HK

Ágætis pistill hjá þér um hvalnytjar.

Nú þekki ég ekki nefnan Árna og get því ekk tjáð mig um hvort hann

"virðist mest stjórnast af tilfinningum, óháður rökum og sannleika"

eins og þú bendir á í pistli þínum, en við hin skulum allavega passa okkur að handa okkur á málefnalegu nótunum.

Talandi um málefnalega umræðu, þá finnst mér skorta á haldbær gögn um hvalveiðar í heiminum.

Ég fann þó ágætis stutta samantekt á www.fisheries.is þar sem bent er á hvaða þjóðir heims veiða hvali, hve marga og hver stofnstærðin er. - Þar kemur í stuttu máli fram að Íslendingar eru að veiða nokkur dýr úr mjög stórum stofni (yfir 40 þúsund dýr ef ég man rétt)

Ég vil taka það fram að ég er hlyntur sjálfbærri nýtingu auðlinda, og tel hvali teljast flokkast sem slíka. - En mér er farið að skiljast að deilur um þetta mál snúast ekki einfaldlega um rök. Mér sýnist margir líta á hvali sem verur sem við höfum ekki rétt á að deyða. Ég bý á Nýja Sjálandi og þetta virðist vera gagngert viðhorf hér. Það er erfitt að "snúa" fólki sem hefur tekið upp þessa skoðun, og maður fer að spyrja sig "er nauðsynlegt að skjóta þá ?"

Undanfarið hefur mér fundist tvö meginrök fyrir hvalveiðum okkar Íslendinga

1) Þetta er okkar réttur, og við gerum þetta á sjálfbæran hátt og berum virðingu fyrir náttúrunni - og því eigum við að veiða hvali

2) Það eru tveir hópar sem veiða mikið og éta af fiski við Ísland, það eru við (300.000 manns) og 40.000 hvalir (reyndar margir af þeim skíðishvalir).

Nú er ég hér erlendis, og er dálítið "einn í liði", forðast að nefna þetta mál við fólk sem hættir að tala við mann ef maður lýsir við stuðningi við málefnið og dettur í hug að kominn sé tími til að kyngja þjóðarstoltinu og hætta hvalveiðum... (dálítið rauskennt en leyfðu mér að klára...)

Hinn gallinn á hvalveiðunum okkar er líklega sá að við veiðum allt of lítið. Ég er alveg seldur á þá hugmynd að við þurfum að veiða hvali svo þeir éti ekki allan fiskinn okkar - og svo við stöndum ekki frammi fyrir því að umhverfissvernsdarsamtök berjist fyrir því að við hættum að veiða fisk svo hvalirnir fái nóg að éta..

... en til þess að þetta séu haldbær rök, þá þurfum við að veiða miklu meira, það munar ekki um nokkur stykki. -

ég þakka gott hljóð.

HK, 24.5.2007 kl. 14:26

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Sæll minn kæri. Vildi bara benda þér á, að ef þig vantar hvalket þá er það alltaf fáanlegt í Melabúðinni. Bónus á líka talsvert af þessu frosnu, en þeir keyptu birgðirnar 2003.

Þorsteinn Siglaugsson, 25.5.2007 kl. 22:52

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það var nú fínt að höfundur skýrslunnar sem Árni Finnson er að flagga þessa dagana lítur hér inn. Skýrslan er vistu á´síðu Náttúruverndarsamtaka Íslands, en ég sé hana bara á ensku. Hér koma tvir stuttir kaflar ú henni:

"Samkvæmt heimildum okkar eru engin konkret dæmi um að lánamöguleikar íslenskra fyrirtækja, eða fyrirtækja tengdum Íslandi hafi skaðast, né vaxtakjör þeirra. Þetta gæti þó engu að síður auðveldlega breyst með aukinni vitundarvakningu á miklum kostnaði en litlum hagnaði [á veiðunum?] Auk þess starfa bankar og önnur fjármálafyrirtæki eftir siðfræðilegum og umhverfisfræðilegum forsendum sem við þessar aðstæður gætu alfarið komið í veg fyrir að fyrirtæki fengju yfir höfuð lán, ef þau starfa ekki eftir þeirra viðmiðum".

Einnig segir í skýrlsunni varðandi ferðamannaiðnaðinn:

"Ferðamannaiðnaðurinn er eini iðnaðurinn sem hægt er að benda á konkret dæmi um neikvæð áhrif, sem hlotist hafi af hvalveiðum Íslendinga. Þar hafur hvalaskoðunariðnaðurinn orðið fyrir mestum áhrifum, sem er skiljanlegt þar sem viðskiptavinir þeirra eru líklegastir til að vera á móti hvalveiðum. Það er þó engu að síður afar erfitt að meta heildaráhrifin, þar sem ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi hefur vaxið hratt undanfarin ár".

Skýrslan er full af getgátum og bulli eins og annað sem frá Þorsteini hefur komið, samanber skýrsla hans um Kárahnjúka 2001 en þar gagnrýnir Guðmundur Ólafsson lektor við Háskóla Íslands niðustöður Þorsteins Siglaugssonar, rekstarhagfræðings harðlega og segir að vegna þess að hann sé að vinna fyrir Náttúruverndarsamtök gefi hann sér forsendur eftir þörfum. Hann hafi gefið sér í fyrstu útreikningum að verð á raforku myndi lækka um 1% á ári í 60 ár. Og síðan breytir hann forsendum þar sem að framleiðslumagnið er aukið og kostnaður er lækkaður, sennilega samkvæmt ábendingum Landsvirkjunar. Og til þess að missa nú ekki virkjunina upp í arðsemi þá einfaldlega lætur hann raforkuna lækka um 2% á ári í 60 ár til þess að halda henni kyrfilega neðan við strikið. Ég held að þetta flokkist nú bara undir það að gefa sér forsendur eftir þörfum. 

Einnig sagði Guðmundur; Náttúruverndarsamtök Íslands keyptu skýrslu sem byggir á þessari aðferðafræði af Þorsteini Siglaugssyni. Hann velur greinilega forsendur við hæfi viðskiptavina sinna

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.5.2007 kl. 22:19

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þorsteinn Siglaugsson er að mínu mati rekstrarhagfræðistéttinni til skammar og annaðhvort er Árni Finnson einfeldningur sem Þorsteinn hefur í vasanum eða hann er óheiðarlegur. Take a pick!

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.5.2007 kl. 22:22

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég veit nú ekki hver þú ert, væni, en skilst þú sért frá Reyðarfirði. Ofangreind tilraun til þýðingar úr ensku bendir ekki til mikillar kunnáttu í því tungumáli og skilningur þinn á arðsemismati Kárahnjúkavirkjunar ljóslega enginn. Það er samt á íslensku. Nú er auðvitað sjálfsagt að menn setji fram málefnalega gagnrýni, en raus eins og hér að ofan er nú ekki dæmi um það, heldur fremur um litla stjórn á skapsmunum. Eru menn kannski alltaf svona reiðir á Reyðarfirði - er þorpsheitið kannski vitlaust stafsett?

Þorsteinn Siglaugsson, 3.6.2007 kl. 19:25

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ekki veit ég hvað þú ætlaðir að gagnrýna, en eitt er víst að ég hef ekki skrifað neitt um Kárahnjúka og ekki hef ég reynt að þýða neitt úr ensku en ég efast ekki um að mér gangi vel með það og ekki er ég frá Reyðarfirði, það er örugglega ágætis bær en ég held að sá bær geti vel án mín verið.

Jóhann Elíasson

Jóhann Elíasson, 4.6.2007 kl. 10:24

7 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Sæll Jónas.

Hann Þorsteinn hér að ofan var ekki að tala um þig, heldur Gunnar Th. Gunnarsson sem var að gagnrýna hann hér að ofan.

Það sem mig langar að segja er þetta. Það virðist ætla að fá litla umfjöllun í fjölmiðlum sem hefur þó sannast á síðustu árum að fiskistofnar stórminnka við það að jökulár eru virkjaðar... verið er að gera frekari rannsóknir á þessu hérlendis - en hafa verið gerðar erlendis, eins og í Kína þar sem fiskistofnar hrundu í kjölfarið á virkjun risastóru stíflunnar þar. Þetta gerist vegna þess að jökulár bera með sér ýmis steinefni til sjávar sem verða til þess að æti á grunnsævi verður til og er á þeim stöðum þar sem fiskistofnar velja að hrygna.... þegar þetta náttúrulega flæði steinefna og myndun fæðis er truflað hafa stofnarnir ekki eins góða afkomumöguleika þegar þeir hrygna. Þegar þeir hætta að finna æti á þessum stöðum vegna þess að flæði steinefna til sjávar hefur verið stöðvað/skert, þá verður að sjálfsögðu minna úr stofnunum... þeir færa sig um set og hætta að hrygna þar, sem veldur því að stofnarnir annað hvort hrynja/minnka eða færast annað. Ef allar eða flestar jökulár Íslands verða virkjaðar verður lítið um slík svæði fyrir stofnana og má því áætla að stofnar hér í kringum landið munu hrynja á næstu árum og áratugum. Allar þessar staðreyndir fá litla sem enga umfjöllun þrátt fyrir mikilvægi þeirra í umræðunni. Þær segja okkur líka það að það er sko alls ekki græn orka sem er framleidd hér á landi.  Hún hefur gífurlegar afleiðingar á lífríki sjávar sem í framtíðinni mun þekkjast betur og verður að taka með í reikninginn. Um þetta virðast sjómenn sem tala um að hvalir séu að minnka fiskistofna ekki vita.

Andrea J. Ólafsdóttir, 5.6.2007 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband